Áframhaldandi landris við Svartsengi - nýtt hættumatskort
- óbreytt hættumat fyrir Grindavík
Eins og tilkynnt var í gær er gosvirkni í Sundhnúksgígjum lokið. Tæplega 90 jarðskjálftar mældust yfir ganginum sem er örlítið meira en í gær. Stærsti skjálftinn var 1,6 vestan við Hagafell rúmlega 16:00 í gær (21. desember).
Land fór strax aftur að rísa við Svartsengi eftir að gos hófst mánudagskvöldið 18. desember. Hraðinn á landrisinu er meiri en fyrir gos. Þetta þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, og líklegt er að það leiði til annars kvikuhlaups og mögulega eldgoss. Líklegasta upptakasvæði fyrir eldgos er á milli Stóra-Skógsfells og Hagafells. Landriskúrfan eins og hún mældist frá kvikuhlaupinu 10. nóvember þar til gos hófst 18. desember einkenndist af hægt minnkandi landrismerki þar sem gos hófst þegar verulega hafði dregið úr landrishraðanum. Þetta ferli á mjög líklega eftir að endurtaka sig og búast má við að næsta kvikuhlaup geti hafist með litlum fyrirvara þegar draga fer aftur úr landrishraða. Líkur á eldgosi aukast því með hverjum deginum sem líður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumatskort byggt á að gosvirkni er lokið. Hættumatskortið tekur gildi klukkan 16:00 í dag (22. desember) og gildir til 29. desember klukkan 18:00. Breytingin felst í að svæði 2 og 3 hefur verið fært af mjög mikilli hættu (fjólubláu) í mikla hættu (rautt). Hættumat á öðrum svæðum er óbreytt. Sér í lagi er vakin er athygli á því að hættumat fyrir Grindavík er óbreytt frá fyrra hættumatskorti og er enn í töluverðri hættu. Veðurstofan bendir á að aðstæður geta breyst hratt og veðuraðstæður hverju sinni geta haft veruleg áhrif á næmni jarðskjálfta- og GPS-kerfa Veðurstofunnar. Við þær aðstæður getur viðbragstími lengst töluvert. Við þessar aðstæður getur viðbragðstími styst.
Veðurspá fyrir Grindavík á morgun, Þorláksmessu (23. desember) er norðaustan 10-15 m/s, snjókoma með köflum og mögulega skafrenningur. Frost verður 3 til 5 stig. Á Aðfangadag (24. desember) er norðan 13-18 m/s og stöku él, en 10-15 m/s síðdegis og líkur á éljum minnka. Áfram má búast við skafrenningi öðru hvoru. Frost 0 til 2 stig.