Áfram unnið að álveri í Helguvík
Sú ákvörðun Landsvirkjunar, að útvega álverum enga orku í bráð, breytir engu um fyrirhugað álver í Helguvík að sögn Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls. Ríkisútvarpið greinir frá þessu nú í kvöld.
Hann segir að farið hafi verið út í verkefnið á grundvelli orkusamninga við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Samstarf við þær hafi gengið vel hingað til. Orka frá Landvirkjun hefði vissulega verið góð viðbót, en sé ekki nauðsynleg fyrir verkefnið.
Í fréttum á föstudag sagði Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, að það væru vonbrigði að Landsvirkjun ætli ekki að selja stækkuðu álveri Alcan raforku. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra í Reykjavík, að það myndi létta ákveðnum framkvæmdaþrýstingi af Orkuveitu Reykjavíkur ef uppbygging Alcan væri úr sögunni.