Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áfram konur!
Laugardagur 26. nóvember 2016 kl. 06:00

Áfram konur!

Markaðssetning er mikilvæg í mörgum málum og við getum nefnt tvö mál í þessum pistli núna. Í umfjöllun Víkurfrétta í þessari viku er sagt frá mikilli aukningu á rafrettu-reykingum meðal ungs fólks. Þá segjum við frá því að kynbundinn munur á launum hafi aukist. Það kemur fram í könnun sem meðal annars var gerð meðal félaga í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis.

Hvar kemur markaðssetning inn í þessa umræðu? Jú, alveg eins og það hefur í gegnum tíðina verið vakin athygli á skaðsemi reykinga á margvíslegan hátt þá er ljóst að stórauka þarf forvarnir og umræðu um skaðsemi þessarar nýju hættu. Þessar rafrettur hafa ratað inn í skólana og aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja sá sig knúna til að senda foreldrum pistil þar sem hún lýsti yfir miklum áhyggjum sínum í slæmri þróun í þessum málum. Í viðtali við VF segir hún: „Í dag er það orðið þannig að það þykir flott hjá sumum nemendum að nota rafrettur. Við erum búin að tala við marga nemendur í skólanum varðandi notkun á rafrettum og flestir tala um að þetta sé fíkn. Það er nefnilega hægt að kaupa fyllingu í þær með miklu nikótíni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Í hinu atriðinu sem hér er vakin athygli á varðandi markaðssetningu er launamunur kynjanna. Þegar blaðamaður Víkurfrétta spurði formann Verkalýðsfélags Keflavíkur og nágrennis í viðtali hvort það væri ekki lag að félagið færi af stað með markaðs- og auglýsingaherferð sem væri hvetjandi fyrir konur, það er að þær töluðu meira við sína yfirmenn og óskuðu eftir launaviðtali, svaraði hann því til að konur væru hógværari en karlar. Í könnuninni kemur fram að þær eru ekki nærri eins duglegar og karlar að biðja um launaviðtal. Það væri líklega nokkuð flott og myndi örugglega gleðja jafnréttissinna ef félagið færi þá leið að útbúa eitthvað markaðsefni til að hvetja konur til að vera ekki svona hógværar!

Konur eru í miklum meirihluta í hópi kennara. Þær eru ekki hógværar og hafa vakið mikla athygli á launabaráttu sinni að undanförnu, meðal annars með stórum fundi á Ásbrú í vikunni. Þar hafa konur verið í framlínunni, alla vega hér suður með sjó. Ein þeirra, María Sigurðardóttir, kennari við Holtaskóla í Reykjanesbæ, hefur sagt starfi sínu lausu. Aðrir níu kennarar í skólanum hafa farið sömu leið og sagt upp. Staða grunnskólakennara er virkilegt áhyggjuefni. „Það er afskaplega erfitt að segja upp starfi sem maður elskar og þetta var erfitt skref að taka,“ segir hún. Hún segir kennara vilja laun miðað við menntun og ábyrgð.

Það sem hefur komið fram er að verulegur launamunur er hjá kennurum grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir fyrrnefndu eru hjá sveitarfélögunum en hinir hjá ríkinu. Það hlýtur að vera verulegt umhugsunarefni af hverju það er.

Í blaðinu er grein frá foreldrum þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við baráttu kennara og svo fjallar einn okkar baksíðupenna, Örvar Kristjánsson um málið í Lokaorðum sínum.
Áfram konur!

Páll Ketilsson
ritstjóri