Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Áfram farið frá Suðurstrandavegi
Mánudagur 29. janúar 2024 kl. 22:11

Áfram farið frá Suðurstrandavegi

Áfram verður farið um Suðurstrandaveg til að komast til Grindavíkur. Vegagerðin hefur rutt veginn aftur og hann því orðinn greiðfærari. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn Almannavarna. Eftirfarandi kom einnig fram frá aðgerðastjórn:

Grindavíkurbær er með þrjár virkar vegtengingar, Nesveg, Norðurljósaveg og Suðurstrandarveg. Enginn þessara vega er laus við vandamál þegar kemur að vetrarfærð og illa búin ökutæki munu verða til vandræða óháð undirbúningi viðbragðsaðila eða vali á akstursleið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af þessum þremur vegum er Norðurljósavegur sá mikilvægasti sökum nálægðar við Reykjanesbraut. Sá vegur er laskaður vegna sprungumyndunar og mikillar umferðar. Ef öll umferð íbúa, sem er umtalsverð, yrði beint um Norðurljósaveg myndum við taka þá miklu áhættu að hann teppist vegna umferðar, óhapps, bilunar eða annarra orsaka.

Það myndi þýða að viðbragðsaðilar, t.d. sjúkrabifreiðar, þyrftu að fara um Nes- eða Suðurstrandaveg og er það óásættanleg áhætta að okkar mati. Einnig myndi það þýða miklar tafir á sjálfu verkefninu sem við erum að leggja kapp á að gangi sem best.

Við gerum okkur grein fyrir að Suðurstrandarvegurinn er langt frá því að vera ákjósanlegur. Hann hefur þó það umfram Nesveg að innviðir eru til staðar til að taka á móti miklum fjölda ökutækja á skömmum tíma.

Á sama tíma þurfa fyrirtæki einnig að vitja eigna sinna og var þeim úthlutað Nesvegi til að minnka samkeyrslu þungaflutninga og íbúa.

Þetta er gert út frá mati á þeim viðgerðum sem hefur þurft að framkvæma á vegakerfi innan Grindavíkur sem utan og þeim þunga og ágangi sem þær þola.

Að þessu sögðu fer sífellt fram mat á aðstæðum og leitum við leiða til að besta þetta verklag til að hámarka öryggi og ávinning allra hlutaðeigandi.

Er því m.a. leitað leiða til að fjölga akstursleiðum íbúa inn í Grindavík og ekki loku fyrir það skotið að akstursskipulag taki breytingum eftir því sem líður á verkefnið.