Aflögun og þensla sést á mælitækjum austan Grindavíkur
Jarðskjálftahrinan norðan við Grindavík heldur áfram og hafa um 1000 jarðskjálftar mælst frá miðnætti. Frá því að hrinan hófst þann 24. október hafa um 5800 skjálftar mælst, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Skjálfti af stærð M4,0 varð kl. 04:02 í nótt um 2 km norðan við Grindavík. Skjálftavirknin er talin vera afleiðing spennubreytinga vegna aflögunar á Reykjanesskaga síðustu ár.
Nýjustu cGPS gögnin staðfesta aflögun sem mældist í gær austan Festarfjalls. Samtals lárétt hreyfing sem mælst hefur á FEFC stöðinni nær núna 2 cm.
Í dag mælist þenslan líka á annarri stöð, Selatöngum, austan við FEFC stöðina.
InSAR mynd unnin úr gervitunglagögnum frá 26. til 27. október sýnir engin merki um aflögun á þessu svæði, þó hreyfing á cGPS stöðvum á sama tímabili var um 1 cm, sem er líklega of lítil til að sjást á gervitunglamynd. cGPS stöðvar í kringum og norðan við Gindavík sýna ekki markverðar breytingar.