Afla tekna fyrir Keili með fjölorkustöð við Rósaselstorg
Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, hefur sótt um lóð fyrir fjölorkustöð við Rósaselstorg. Rósaselstorg er hringtorgið ofan Keflavíkur þar sem umferð liggur til Leifsstöðvar, Sandgerðis, Garðs, Keflavíkur og á Reykjanesbrautina. Landið tilheyrir Sveitarfélaginu Garði og því hefur umsóknin verið send þangað til meðferðar.
Bæjarráð Garðs telur hugmynd Keilis um fyrstu fjölnota orkustöðina á Íslandi við Rósaselstorg, afar spennandi. Bæjarráð vísar erindinu til Skipulags- og byggingarnefndar til skoðunar um hvort hugmyndin rúmast innan þeirra tillagna sem þegar hafa verið settar fram í skipulagi við Rósaselstorg og hugsanlegra samnýtingu með fleiri aðilum á skipulagssvæðinu.
Hugmyndir um fjölnota orkustöð hafa lengi verið til meðferðar hjá Keili en orkumál eru Keilismönnum ofarlega í huga og eru ein af stoðunum í námi Keilis. Í samtali við Víkurfréttir sagði Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, að auk hefðbundinna orkugjafa sem eru algengastir í dag, bensín og diesel, þá er ætlunin í framtíðinni að bjóða upp á metan, lífdísel, vetni og rafmagn á nýju fjölorkustöðinni. Byrjað verður með metan og fljótlega eftir það lífdíselinn.
Fram til þessa hefur metan eingöngu verið fáanlegt á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu en með opnun stöðvar á Suðurnesjum opnast miklir möguleikar fyrir fólk á Suðurnesjum að nýta sér kosti metanbíla. Að sögn Hjálmars hefur verið tryggt að fjölorkustöð Keilis fái metan sem hún þarfnast til að þjóna þeim markaði sem gert sé ráð fyrir hér á Suðurnesjum. Mikill áhugi er hjá fyrirtækjum á Suðunesjum að taka metanbíla í notkun en nýverið var haldinn fundur hjá Keili þar sem fulltrúar margra fyrirtækja lýstu því yfir að þau væru tilbúin að taka metanbíla í sína þjónustu um leið og metanstöð opnaði á Suðurnesjum.
Hjá Keili er einnig unnið að hugmyndum um vinnslu á eigin metani. Það metan sem framleitt er í landinu í dag kemur frá sorphaugum Sorpu en Keilir mun á næstu árum framleiða sitt eigið metan úr lífrænum úrgangi af Suðurnesjum.
Fjölorkustöð Keilis er valinn staður við Rósaselstorg þar sem menn sjá fyrir sér að þar rísi mannvirki á svipuðum nótum og menn þekkja hjá Staðarskála í Hrútafirði. Auk eldsneytissölu verði þarna veitingasala og þjónusta við ferðafólk. Keilismenn hugsa sér að þarna verði yfirgripsmikil þjónusta við ferðamenn og stöðin þeirra fyrsta stopp eftir komuna til Íslands. Hjálmar sér þarna tækifæri fyrir Suðurnesjamenn til að beina ferðamannastraumi enn frekar um Suðurnesin. Þegar ferðamenn séu komnir út úr erli flugstöðvarinnar séu þeir móttækilegri fyrir því sem í boði er. Það sé mikið hagsmunamál fyrir Suðurnesjamenn að halda lengur í ferðamennina og fá þá til að stoppa lengur á svæðinu og skilja þannig eftir meiri tekjur. Hjálmar segir að leitað verði eftir samstarfi við marga aðila til að gera fyrstu fjölorkustöð landsins að veruleika og í framhaldinu yrði tekin endanleg ákvörðun. Hins vegar er stefnt að opnun metanafgreiðslunnar strax í október nk. og verður kynnt nánar síðar.
Aðspurður um hvers vegna Keilir væri að ráðast í rekstur sem þennan, sagði Hjálmar að rekstur stöðvarinnar tengdist námi við Keili og fyrirhuguð metan-framleiðsla munskila tekjum til Keilis til uppbyggingar skólastarfsins.