Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Afkoma Flugleiða batnar um milljarð króna - Félagið hefur sölu á nýju hlutafé
Miðvikudagur 3. nóvember 2004 kl. 19:42

Afkoma Flugleiða batnar um milljarð króna - Félagið hefur sölu á nýju hlutafé

Stjórn Flugleiða hf. hefur ákveðið að selja allt að 420 milljónir hluta í félaginu til fagfjárfesta. Þar með er hafið söluferli sem áformað er að standi til 10. nóvember næstkomandi að því er fram kemur í frétt á vefsíðu Kauphallar Íslands í dag.
 
Stjórn Flugleiða hf. hefur heimild frá hluthafafundi félagsins, sem haldinn var þann 18. október síðastliðinn til að auka hlutafé um allt að 230.700.000 hluti og selja öðrum en forgangsréttarhöfum. Að auki á félagið tæplega 193 milljónir eigin hluta.
 
Stjórn félagsins ákvað á fundi sínum í morgun að selja 350-420 milljónir hluta. Er fyrirhugað að auka hlutafé um 230 milljónir hluta en selja að auki 120-190 milljónir af eigin hlutum félagsins. Hlutirnir verða boðnir fagfjárfestum, bæði innan og utan núverandi hluthafahóps. Þriðjudaginn 9. nóvember og miðvikudaginn 10. nóvember verður fjárfestum boðið að leggja inn kauptilboð á verðbilinu 8,80-10,20 krónur á hlut en lokagengi í Kauphöll í gær var 9,65 krónur á hlut. Er áætlað að söluferlinu ljúki kl. 16 miðvikudaginn 10. nóvember. Lágmarksfjárhæð sem hægt verður að skrá sig fyrir er 5 milljónir króna að kaupverði. Verð hlutanna, fjöldi þeirra og úthlutun mun ráðast af eftirspurn fagfjárfesta og markaðsaðstæðum að öðru leyti.
 
Það fjármagn sem félagið aflar með sölu hlutanna verður notað til að styrkja núverandi starfsemi og til annarra fjárfestinga. Með útboðinu er auk þess stefnt að því að breikka hluthafahóp félagsins og stuðla þar með að auknum viðskiptum með bréfin. Er stefnt að því að þau verði í úrvalsvísitölu Kauphallarinnar.
 
Umsjón sölunnar er í höndum Fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings Búnaðarbanka hf.
 
Hagnaður af rekstri Flugleiðasamstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam um 3,1 milljarði króna fyrir skatta, samkvæmt óendurskoðuðu innanhússuppgjöri félagsins. Afkoman hefur því batnað um 1 milljarð króna frá sama tímabili á fyrra ári. EBITDA-hagnaður samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam um 4,2 milljörðum króna en um 2,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024