Afkastageta í Svartsengi í hámarki og mögulega þarf að skammta heitt vatn
Afkastageta Svartsengis á heitu vatni er í hámarki og vera má að grípa þurfi til skömmtunar í sveitarfélögum á Suðurnesjum vegna þessa, segir í tilkynningu sem var að berast frá Almannavörnum.
Vegna skemmda á dreifikerfi hitaveitu í Grindavík leka nú um 40-50 lítrar/sek úr kerfinu, sem telst mjög mikið. Dreifikerfið er viðkvæmt og erfitt verður að finna alla þá staði sem hafa skemmst, svo ætla má að bráðabirgðaviðgerðir verði umfangsmiklar og tímafrekar.
Stofnlögn heitavatnsins frá Svartsengi er ónýt og því er nú notast við lögn sem liggur undir hrauni. Sú lögn er með skemmda einangrun og óvíst hve lengi hún mun duga og hversu mikinn þrýsting hún þolir. Þrátt fyrir að náðst hafi að að halda lágmarkshita í byggðinni getur það breyst hratt við minnstu breytingu og því var biðlað til íbúa að hækka ekki hita eða nota heitt vatn, þegar farið var heim. Rúmlega 200 hús eru án hitaveitu en flest þá hituð með rafmagni.