Afhentu heilbrigðisráðherra undirskriftalista vegna skurðstofumála
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra tók í gær við undirskriftalistum með nöfnum 4660 einstaklinga á Suðurnesjum. Undirskriftirnar eru til að ítreka kröfu Suðurnesjamanna um að komið verði á sólarhringsvakt á skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Það voru þau Karen Hilmarsdóttir og Einar Árnason sem stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni. Aðfararnótt 21. janúar sl. lést dóttir þeirra. Hún fæddist andvana á Landspítalanum í Reykjavík, eftir að móðirin hafði verið flutt þangað í sjúkrabíl því skurðstofan í Keflavík var lokuð.
Með undirskriftunum vilja þessir 4660 Suðurnesjamenn undirstrika það að þeir vilji búa við öryggi sem í því felst að hafa skurðstofu til taks allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, lýsti því yfir þegar hann tók við listunum að hann væri að reyna að finna fjármagn til að tryggja opnun skurðstofunnar allan sólarhringinn.
Frá afhendingu undirskriftalistanna í gær.
VF-myndir/ Hallgrímur Indriðason www.vikurfrettir.is