Afhentu 660.000 krónur í minningu Áslaugar Óladóttur
Vinkonur Áslaugar Óladóttur heitinnar afhentu Samtökum um kvennaathvarf 660.000 krónur sem vinir, skólafélagar og fjölskylda Áslaugar söfnuðu í tilefni að því að 6. ágúst hefði Áslaug orðið 40 ára hefði hún fengið að lifa.
„Styrkurinn rennur beint í splunkunýtt verkefni sem við hlökkum til að kynna fyrir ykkur fljótlega en látum nægja núna að opinbera hið fremur óþjála vinnuheiti "framúrskarandi, þverfagleg þjónusta við börn í dvöl" og markmiðið sem er að auka lífsgæði krakkanna okkar í nútíð og framtíð. Við þökkum fólkinu hennar Áslaugar fyrir okkur og lofum að vanda okkur við að eyða söfnunarfénu,“ segir á Facebook-síðu Samtaka um kvennaathvarf.