Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Afhenti Krabbameinsfélaginu 5 milljónir króna
Miðvikudagur 27. nóvember 2019 kl. 07:23

Afhenti Krabbameinsfélaginu 5 milljónir króna

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, afhenti Krabbameinsfélagi Íslands fimm milljónir króna vegna þátttöku þess í árverknisátaki Bleiku slaufunnar.

Bláa Lónið hefur klætt sérvaldar vörur sínar í bleikan búning frá árinu 2015 til styrktar átakinu. Í fyrra runnu 20% af söluandvirði varasalvans í október beint til Bleiku slaufunnar og þá söfnuðust 2,6 milljónir króna. Í ár hækkaði hlutfallið hins vegar í 30% af söluandvirði hvers varasalva og söfnuðust sem fyrr segir 5 milljónir króna sem renna beint til átaksins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum afar ánægð með þennan veglega styrk frá Bláa Lóninu og það góða samstarf sem hefur byggst upp, allt frá árinu 2015. Styrkurinn skiptir félagið heilmiklu máli og á sinn þátt í að félagið getur sinnt fjölbreyttri starfsemi, svo sem forvörnum og rannsóknum auk þess að bjóða upp á ókeypis ráðgjöf og stuðning fyrir sjúklinga og aðstandendur, ýmis konar námskeið og fræðslu. Við þökkum Bláa Lóninu og öllum þeim sem keyptu varasalvann sem seldur var til styrktar Bleiku slaufunni kærlega fyrir stuðninginn,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Bleika slaufan er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar stendur undir stórum hluta af þeirri fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir án endurgjalds.

Með því að leggja Bleiku slaufunni lið leggur fólk sitt af mörkum fyrir þær tæplega 800 konur sem greinast með krabbamein ár hvert, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt.