Afhendingu Kríulands lokið
Húsnæðissamvinnufélagið Búmenn afhenti í dag sex íbúðir í Garði við hátíðlegt tilefni en afhendingin var liður í lokaáfanga Kríulands.
Ásgeir Hjálmarsson og Guðrún Jónsdóttir, fyrir hönd Búmanna, og Bragi Guðmundsson byggingarmeistari, ásamt eiginkonu sinni Gerðu Þorvaldsdóttur afhentu íbúðirnar sex í dag.
Búmannaíbúðirnar í Garði vöktu strax mikla athygli fyrir gott handbragð og mikil eftirspurn varð eftir þeim. Á síðustu sex árum hafa Búmenn byggt alls 36 íbúðir í Garði en félagið var stofnað árið 1998.
Þegar búið var að afhenda íbúðirnar í dag var slegið upp grillveislu þar sem allir tóku hraustlega til matar síns.
VF-myndir/ [email protected]
Mynd 1: Frá vinstri, Bragi Guðmundsson, Gerða Þorvaldsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Ásgeir Hjálmarsson.
Mynd 2: Í sól og sælu
Mynd 3: Röðin var löng að grillunum enda eðalkokkar við völdin