Afgangs jarðhiti býr til um 400 störf
– Auðlindagarðurinn á Reykjanesi í Sjónvarpi Víkurfrétta í kvöld
Heilnæmt „iðnaðarskolp“ eða hrakstraumar frá orkuverum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi eru nýtt til atvinnuskapandi verkefna hjá mörgum fyrirtækjum og hafa gefið af sér um 400 störf og fer fjölgandi. Fyrirtækin sem nýta þennan afgang eru samtals orðin jafn stór og HS Orka, eigandi orkuveranna, en með miklu fleiri starfsmenn. Þar ber hæst Bláa lónið sem er orðið eitt öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi.
Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku segir í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta að líklega hefði Bláa lónið ekki orðið til miðað við regluverkið sem er við lýði í dag því ekki fengist leyfi til að dæla jarðhitavökva frá orkuverinu í Svartsengi út í náttúruna. Albert útskýrir í viðtalinu hvernig svokallaður Auðlindagarður á Reykjanesi hefur þróast frá því orkuverið í Svartsengi var stofnsett. Þar er endurnýtingin á jarðhitavökva sem kemur út úr orkuverunum ein stærsta búbót eða bónus sem engir gátu séð fyrir þegar Hitaveita Suðurnesja var stofnuð.
Mikil vinna hefur verið lögð í að formgera Auðlindagarðinn á Reykjanesi á síðustu mánuðum. Sýnin er einföld; endurnýjanleg auðlind og sjálfbær vinnsla - samfélag án úrgangs – 100% grænn Auðlindagarður með jarðvarma í grunninn, þar sem ekkert fer til spillis og hrat frá einu fyrirtæki getur verið aðföng annars. Þverfaglegt samstarf og samhæfing ólíkra þátta til að hámarka árangur, nýtingu og virkni.
Í vikulegum þætti Sjónvarps Víkurfrétta frá Suðurnesjum er einnig spjallað við Ásgeir Margeirsson, forstjóra HS Orku um breytingar á lögum um orkumál og hvaða þýðingu þau höfðu. Hann tók við sem forstjóri fyrirtækisins um síðustu áramót. Ásgeir segir umræðuna um fyrirtækið oft hafa verið á villigötum en mörg bæjarfélög á Suðurnesjum seldu hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja þegar ný lög um skiptingu fyrirtækisins í HS Veitur og HS Orku, tóku gildi. HS Orka á orkuverin í Svartsengi og á Reykjanesi en leigir landssvæðin af Grindavíkurbæ og ríkinu. Hann segir að íbúar á Suðurnesjum þurfi ekki að hafa áhyggjur af því þótt eigandi að um 2/3 hluta fyrirtækisins sé kanadískt orkufyrirtæki en 14 íslenskir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung. Fyrrverandi eigendur hefðu ekki haft bolmagn og fjármagn sem til þurfti til eflingar þess inn í framtíðina. Þá segir hann HS Orku mjög meðvitaða um að auðlindin sé ekki ótakmörkuð og náttúran sé alltaf í öndvegi.
Þátturinn er á ÍNN í kvöld kl. 21:30.