Afbrotum fækkar í Grindavík
- Umferðaróhöppum fjölgar
Afbrotum í Grindavík hefur farið fækkandi frá árinu 2010 en örlítil aukning varð á milli áranna 2014 og 2015, samkvæmt því sem kemur fram á vef bæjarins. Í síðustu viku áttu sviðsstjórar Grindavíkurbæjar fund með lögreglustjóranum á Suðurnesjum þar sem farið var yfir tölfræði síðasta árs og rætt um áherslur og áætlanir á nýju ári. Um var að ræða árlegan yfirlitsfund.
Umferðaróhöppum í Grindavík hefur fjölgað á milli ára. Á vef bæjarfélagsins kemur fram að Grindvíkingar hafi löngum vakið athygli á því en talað fyrir daufum eyrum, að kominn sé tími á endurbætur á Grindavíkurvegi og Norðurljósavegi. „Þessir vegir voru einfaldlega ekki hannaðir fyrir þessa umferð og vonandi er þess ekki langt að bíða að bætt verði úr í þessum málaflokki,“ segir á vef Grindavíkurbæjar.