Af hverju eru póstmenn svona druslulegir?
Víkurfréttir í yfir 30 ár
Lesandi Víkurfrétta árið 1983 furðar sig á klæðaburði póstmanna sem að hans mati voru druslulegir og illa til hafðir hér í bæ fyrir rúmum 30 árum, eða þann 21. júní árið 1983.
„Hvernig stendur á því að póstmenn hér í Keflavík klæðast ekki einkennisbúningum eins og annars staðar á landinu? Ég veit að þeir fá greitt fyrir að vera snyrtilegir til fara og þurfa aðeins að láta taka af sér mál og þá fá þeir góðan búning. Getum við bæjarbúar lengur þolað að sjá þá allt að því druslulega til fara? Mér er spurn? Hvað gera þeir við fatapeningana?“
Þessi fyrirspurn þess sem kaus að kalla sig „Keflvíking“ var lögð fyrir Björgvin Lúthersson stöðvarstjóra Pósts og síma í Keflavík á þessum tíma og birtist í Víkurfréttum. „Póstmenn fá fullkominn og smekklegan vinnufatnað sem þeir eiga að nota,“ sagði Björgvin. „Ég hef oft sinnis óskað þess eftir því við þá, og eins stendur það skýrt í samningum póstmannafélagsins,“ sagði Björgvin að lokum í samtali við Víkurfréttir árið 1983.
Ekki ber á því að bæjarbúar Reykjanesbæjar sé ósáttir við klæðaburð póstburðarfólks nú til dags.
Skjáskot af Víkurfréttum frá 21. júní árið 1983.