Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Af gegnu tilefni: Hvers vegna er hnífum og sleggjum beitt á „ónýta hluti“?
Fimmtudagur 14. september 2006 kl. 20:30

Af gegnu tilefni: Hvers vegna er hnífum og sleggjum beitt á „ónýta hluti“?

Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Varnarliðsins, hafði samband við Víkurfréttir eftir að blaðið birti frétt þess efnis á vefnum að til standi að farga umtalsverðu af nothæfum húsbúnaði Varnarliðsins. Hann sagði þetta rangt og að einhver hefði verið að ljúga að blaðamanni Víkurfrétta. Einnig birtist athugasemd eftir Friðþór á vef Ríkisútvarpsins.

Víkurfréttir hafa það staðfest að sleggjur hafi verið notaðar til að eyðileggja hillur sem komið var með í sorpeyðingarstöðina Kölku við Helguvík og að hnífar hafi verið notaðir til að skera áklæði á skrifstofustólum. Þessir hlutir hafi verið heilir þegar þeir komu til förgunar en sleggjum og hnífum beitt eftir að komið var með hlutina í Kölku. Þar hafi hlutirnir verið eyðilagðir og því „aðeins ónýtum hlutum fargað“.

Myndatökumaður Víkurfrétta varð síðan vitni að því í dag þegar hverju brettinu á fætur öðru hlaðið drykkjarvöru frá verslun Varnarliðsins var ekið inn á gólf sorpeyðingarstöðvarinnar þar sem vörunum var fargað. Alls ekki ónýt vara sem frekar hefði átt heima hjá góðgerðarsamtökum eins og „ónýti“ húsbúnaðurinn. Næsti farmur í fylgd tollvarða mun vera væntanlegur eftir helgi.

Víkurfréttir treysta heimildarmönnum sínum innan Varnarstöðvarinnar, enda hefur komið á daginn að þær upplýsingar sem blaðið hefur oft verið fyrst til að birta, hafa reynst réttar. Það sama á við um heimildir Víkurfrétta um förgun barnaleiktækja og annars búnaðar á vegum Tómstundadeidar Varnarliðsins og annarra aðila, hvað svo sem Varnarliðið gerir nú eftir að frétt Víkurfrétta fór í loftið. Að sjálfsögðu er Varnarliðinu frjálst að ráðstafa eigum sínum að vild, en það sem ekki fer til notkunar á öðrum herstöðvum eða í nýja „sölu varnarliðseigna“ á frekar heima hjá góðgerðarsamtökum en á haugunum. Það á líka við um matvöru og drykkjarföng.

Víkurfréttir taka upplýsingar Varnarliðsins með varúð og er skemmst að minnast þess að sama dag og forsætisráðherra Íslands tilkynnti þjóðinni það í mars að Varnarliðið væri að yfirgefa landið nú í september reyndu Víkurfréttir að fá sömu fréttir staðfestar hjá upplýsingaskrifstofu Varnarliðsins fyrir hádegi þann dag. Þá var ekki fótur fyrir fréttinni, að sögn upplýsingaskrifstofunnar. Annað kom nú á daginn, sama daginn!

Hilmar Bragi Bárðarson
fréttastjóri
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024