Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Af dragnótaveiðum í september 2003
Örn KE á dragnótaveiðum í Garðsjóð í september 2014. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 9. október 2018 kl. 12:07

Af dragnótaveiðum í september 2003

- og útgerð trillukarla ótengdum fiskvinnslum

Af tveimur fyrstu pistlunum hérna í Víkurfréttum má ætla að þeir séu í boði Vísis ehf. í Grindavík, því minnst hefur verið á það fyrirtæki í báðum pistlunum. Staðan er reyndar þannig í útgerðarmálum á Suðurnesjunum að einstaklingsútgerðir eru orðnar svo fáar og í raun þá má segja að útgerðir sem eiga báta sem eru stærri enn 30 tonn á Suðurnesjunum séu bara eitt stórt núll. Fiskvinnslufyrirtækin eiga orðið alla þá báta sem gerðir eru út frá Suðurnesjum og eftir standa þá nokkir trillukarlar.

Ef við lítum aðeins á trillukarlana, eða útgerðarmenn sem eiga báta sem ekki eru tengdir fiskvinnslum, má sjá að í Grindavík landaði Sæfari GK 1,9 tonnum í þremur róðrum og Grindjáni GK 224 kílóum í einni löndun, báðir á handfærum í september. Enginn bátur í þessum flokki sem við erum að skoða landaði í Keflavík fyrir utan nokkra makrílbáta sem voru að veiðum fram undir miðjan september. Í Sandgerði var Alla GK með 2,4 tonn í fjórum. Björgvin GK 2,2 tonn í fimm. Sigrún GK 1,9 tonn í þremur. Mjallhvít KE 497 kíló í einum. Dímon KE 376 kíló í einum og Bára KE 334 kíló í einum. Allir þessir bátar voru á handfæraveiðum og var þetta heildaraflinn hjá þeim í september.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eitt skýrasta dæmið um þá miklu breytingu sem orðið hefur á útgerðarmálum á Suðurnesjum eru dragnótabátarnir. Það var árviss viðburður í Keflavík að höfnin fylltist af dragnótabátum sem voru að veiðum í Faxaflóa og voru þessir bátar einfaldlega kallaðir Bugtarbátarnir. Það þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til þess að sjá breytingu sem orðið hefur á útgerðarmálum hjá dragnótabátunum.

Förum í smá ferðalag aftur í tímann, en þó ekki langt. Aðeins timmtán ár aftur í tímann og skoðum september árið 2003. Þá var landað í Keflavík 909 tonnum af fiski og var uppistaðan í þeim afla frá dragnótabátum. Þá var t.d. Árni KE að landa þar. Árni KE er á Húsavík og heitir í dag Árni í Eyri ÞH og hefur reyndar ekki landað afla í nokkur ár. Þessi bátur er var lengst af Rúna RE.  Fyrstu vikuna í september 2003 þá landaði Árni KE 48 tonnum í fjórum róðrum.

Örn KE er bátur sem allir þekkja og þessi bátur var seldur til Bolungarvíkur árið 2017 og heitir Ásdís ÍS. Örn KE var gerður út frá Sandgerði að mestu, nema þegar Bugtin opnaðist, þá kom báturinn til Keflavíkur. Fyrstu vikuna landaði báturinn 69 tonnum í fimm róðrum.

Þröstur RE var lengi gerður út frá Grindavík á dragnót og var þessi bátur síðan seldur á Vestfirði og fékk nafnið Egil ÍS. Báturinn brann mjög illa fyrir rúmu ári síðan. Þröstur RE var með 36 tonn í fjórum róðrum fyrstu vikuna.

Farsæll GK er líka bátur sem allir þekkja, rauði báturinn sem Grétar Þorgeirsson var skipstjóri á í 25 ár. Í dag er Grétar skipstjóri á Kristbjörgu ÁR, sem er gamli Gulltoppur GK. Fyrstu vikuna var báturinn með 41 tonn í fimm róðrum. Valur HF, sem í dag er Hafdís SU, var líka að róa frá Keflavík og var með 33 tonn í fjórum róðrum fyrstu vikuna.

Njáll RE er líka mörgum kunnugur og þessi bátur er ennþá til. Liggur í Sandgerðishöfn og hefur verið lagt, en ekki seldur og ekki búið að selja kvótann. Þessi bátur á sér um 30 ára útgerðarsögu að mestu frá Sandgerði og mannaður mönnum frá Sandgerði svo til öll þessi ár. Hjörtur Jóhannsson var skipstjóri á bátnum flest öll þessi ár og er í dag eigandi af smábáti sem heitir Stakasteinn GK. Bátnum gekk alltaf vel á bugtinni og landaði 65 tonnum í fimm róðrum fyrstu vikuna í september 2003.

Hvernig er þessum málum háttað í dag? Jú, því er auðvelt að svara. Enginn dragnótabátur er gerður út frá Grindavík. Enginn bátur að landa í Keflavík eftir veiðar í bugtinni og eftir standa þá þrír bátar sem Nesfiskur á, og allir landa þeir í Sandgerði. Það var reyndar mokveiði hjá þeim í september 2018. Sigurfari GK var með 176 tonn í sautján róðrum. Benni Sæm GK 168 tonn í fjórtán og Siggi Bjarna GK 167 tonn í þrettán róðrum.

Já, þetta er ansi mikil breyting og væri farið aðeins lengra aftur í tímann þá myndu koma fleiri bátar þar inn sem voru gerðir út, eins og t.d. Eyvindur KE og Baldur KE.

Gísli Reynisson
[email protected]