Ævar Olsen fékk Rolex fyrir góðan rekstur TGI
Njarðvíkingurinn Ævar Olsen, rekstrarstjóri TGI Fridays í Smáralind, hefur verið valinn besti rekstrarstjóri TGI keðjunnar í Evrópu og heiðraður fyrir góðan árangur við reksturinn. Rekstur Ævars á Íslandi þótti bera af um 400 TGI stöðum í Evrópu, en viðurkenningin var veitt á árlegum fundi rekstrarstjóra TGi Fridays í Dallas í Texas. Ævar stofnaði veitingarstaðinn Olsen Olsen við Hafnargötu á sínum tíma, en sá staður lifir enn góðu lífi.
Ævar var heiðraður með medalíu og verðlaunagrip, auk peningaverðlauna en síðast en ekki síst fékk hann Rolex úr fyrir árangurinn og það ekki af ódýrustu gerðinni, að því er kemur fram í frétt á vefnum Freisting.is, fréttavef um mat og vín.
Ævar segir sjálfur að lykillinn að góðum árangri sé sú stefna að hann lækkaði verðið um 7%, sem skilaði sér í 26% veltuaukningu. Starfsmannaveltan sé auk þess lítil, sem skili sér í markvissari og betri þjónustu. Fram kemur á vef Freistingar að sem dæmi hafi 1.700 manns snætt á Fridays helgina sem Samfés fór fram og undir slíkri pressu þurfi allt að virka.
Mynd/frétt Freisting.is