Ætluðu í læknisleik með notaða sprautunál
Vegfarandi hafði samband við lögregluna á Suðurnesjum um páskahelgina og vísaði á sprautunál sem lá í moldarbeði við hús í Reykjanesbæ. Hann hafði verið á gangi fram hjá húsinu, þegar hann heyrði á tal nokkurra barna, um það bil fimm ára gamalla, sem voru að tala um að fara í læknisleik með sprautunál. Hann spurði börnin hvað þau væru að gera en þá hlupu þau í burtu. Nálin var fjarlægð og eytt á lögreglustöð.
Þá tilkynnti annar vegfarandi lögreglunni um fíkniefnaáhald, sem reyndist vera hálfs líters plastflaska sem notuð hafði verið til fíkniefnaneyslu og var hún fjarlægð. Lögreglan beinir þeim tilmælum til fólks að hafa augun opin fyrir slíkum hlutum og láta tafarlaust vita í síma 4201700.