Ætlaði að skipta þýfi fyrir vímuefni
Starfsmaður í verslun í Reykjanesbæ sá fyrir helgi til konu sem var að stinga brauði ofan í tösku sína. Síðan reyndi hún að komast fram hjá afgreiðslukössum án þess að greiða fyrir varninginn. Starfsmaðurinn stöðvaði för hennar og tæmdi hún töskuna að tilmælum hans. Kom þá í ljós að hún var með vörur að verðmæti um 22 þúsund krónur.
Lögreglan á Suðurnesjum var kölluð á vettvang, en þegar konan komst á snoðir um það vildi hún láta sig hverfa og lenti í átökum við tvo starfsmenn verslunarinnar. Þeir héldu henni þegar lögreglumenn bar að. Konan kvaðst hafa ætlað að skipta þýfinu fyrir vímuefni.