Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 9. desember 1999 kl. 22:16

ÆTLA SJÁLFSTÆÐISMENN AÐ FARA ÚT Í HLUTABRÉFAKAUP OG EINKAREKSTUR ÚT OG SUÐUR?

Reykjanesbær hefur fest kaup á hlutabréfum í Suðurflugi og Thermo Plus en hafnaði því hins vegar að kaupa hlutabréf í Bláa lóninu hf. Ólafur Thordersen (J) kom fram með þá fyrirspurn, á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar s.l. þriðjudag, hver stefna bæjarstjórnar í hlutabréfakaupum væri og hvað réði því hvar bréf væru keypt. „Ætla sjálfstæðismenn að fara út í hlutabréfakaup og einkarekstur út og suður?“, spurði Ólafur. Þorsteinn Erlingsson (D) svaraði fyrirspurn Ólafs og sagði að stefnan í þessum málum hefði verið mörkuð fyrir 5-6 árum síðan. „Þá var ákveðið að styrkja fyrirtæki í bæjarfélaginu með því að kaupa í þeim hlut á meðan þau væru að komast á lappirnar og selja þau þegar staða þeirra væri orðin styrkari. Stefnan er ekki að kaupa hlut í rótgrónum fyrirtækjum eins og Olíufélaginu“, sagði Þorsteinn. Jóhann Geirdal (J) benti á að hlutabréfakaup bæjarfélagsins væru fordæmisgefandi. „Við verðum að geta réttlætt það að kaupa af einum en ekki öðrum“, sagði Jóhann. Björk Guðjónsdóttir (D) tók undir með Þorsteini og sagði að ákvörðun hefði verið tekin um að kapa hlut í Suðurflugi, ekki síst vegna flugskóla sem rekinn er á þeirra vegum. „Flugskólinn gefur ungu fólki á svæðinu tækifæri til að verða flugmenn. Þetta fólk á jafnvel eftir að búa hér á svæðinu í framtíðinni og verða hátekjufólk. Það mun þá borga sína skatta og skyldur hér“, sagði Björk máli sínu til stuðnings.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024