Æskilegt að kynna innheimtuna betur
Segir bæjarstjóri Sandgerðis
Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði birti í gær pistil á vefsíðu Sandgerðisbæjar þar sem hún svarar fyrir innheimtu lóðarleigu í Sandgerði.
Þar segir Sigrún m.a. að um nokkurt skeið hafi legið fyrir að tilteknir landeigendur í Sandgerði hafi stefnt að innheimtu lóðarleigu á jörðum sínum á nýjan leik eftir langt hlé. Um er að ræða félögin Garð ehf. og Fiskiðjuna ehf.
„Á áttunda áratugnum lagðist innheimta þeirra á lóðarleigu sinna jarða af, leigutökum þeirra lóða til talsverðra hagsbóta. Fulltrúar áðurnefndra landeigenda hafa átt í viðræðum við fulltrúa Sandgerðisbæjar um nokkurt skeið og höfðu m.a. greint frá því að frá og með árinu 2013 hyggðust þeir innheimta lóðarleigu af landi í þeirra eigu. Eftir viðræður milli aðila mátu fulltrúar Sandgerðisbæjar það svo að hagsmunum bæjarbúa væri betur borgið með samkomulagi við landeigendur um innheimtu leigunnar,“ segir Sigrún í pistli sínum.
Hún tíundar svo ástæður fyrir samkomulaginu sem eru eftirfarandi:
· Tryggt yrði að álagning lóðarleigu yrði sú sama og á öðrum lóðum í sveitarfélaginu, eða 1,5 % af lóðarmati íbúðarhúsnæðis og 2% af lóðarmati atvinnuhúsnæðis og þannig ákveðið jafnræði meðal íbúa tryggt.
· Tryggt yrði að landeigendur myndu ekki innheimta lóðarleigu aftur í tímann, en heimilt hefði verið að gera það fyrir a.m.k. s.l. 4 ár.
· Fyrirkomulag innheimtu yrði samræmt í sveitarfélaginu og lóðarleigan innheimt með fasteignagjöldum (fasteignasköttum, holræsagjaldi, sorphirðugjaldi o.s.frv.) líkt og hjá öðrum íbúum sveitarfélagsins.
Að endingu segir Sigrún að hafa skuli í huga að innheimta landeigenda á lóðarleigu hefði alltaf orðið að veruleika hvort sem bærinn hefði tekið að sér framkvæmd innheimtunnar eða einhver annar aðili.
Sigrún biðst síðan afsökunar á þeim óþægindum sem innheimtan kann að hafa valdið „Jafnframt skal tekið fram að æskilegt hefði verið að kynna þessa innheimtu betur og með meiri fyrirvara. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem af því hefur hlotist.“
Boðað verður til fundar með hlutaðeigandi húseigendum fljótlega vegna málsins þar sem fulltrúar landeigenda og Sandgerðisbæjar verða til staðar til að gera betur grein fyrir lóðarmálum, lóðarleigunni og til að svara spurningum húseigenda.