Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Æfing við vélsmiðjuna Norma í Vogum
Laugardagur 21. janúar 2006 kl. 16:43

Æfing við vélsmiðjuna Norma í Vogum

Nýverið stóð Slökkvilið BS fyrir æfingu við vélsmiðjuna Norma. Lögð var áhersla á “langa” reykköfun og “vinnulýsingu.”

Velsmiðjan Normi er staðsett við Hraunholt 1 í Vogum, Vatnsleysuströnd. Húsið er um 2500 fermetrar að flatamáli, stálgrindarhús sem hýsir grófan járniðnað ásamt viðgerðum og breytingum á plastbátum, sem og framleiðslu á “heitum pottum” úr polyester. Starfsmenn Norma telja á annan tug þegar mest er, en starfsemin er breytileg eftir umfangi verkefna. Vélsmiðjan Normi hóf starfsemi í Vogunum árið 2000 og hefur unnið mörg verkefni m.a. fyrir álverið í Straumsvík, ýmsar virkjanir og fyrirtæki, þeir smíðuðu m.a. brúna yfir Þjórsá.

Ómar Ingimarsson varðstjóri og Ingvar Georgsson þjálfunarstjóri sáu um uppsetningu á æfingunni. Lagt var upp með að eldur og gassprenging hefði orðið í verksmiðjusal og strax myndast mikill reykur í öllu húsnæðinu. Tólf starfsmenn voru við vinnu þegar þetta ímyndaða óhapp gerðist og höfðu sjö þeirra komist strax út af sjálfsdáðum en fimm aðrir voru fastir inni.

Neyðarlínan var beðin um að framkvæma heildarútkall og tilkynna tilfellið. Stjórnandi á vakt, þegar þetta ímyndaða tilfelli átti sér stað, var Sigurgísli Ketilsson varðstjóri, sem kallaði allt tiltækt lið á staðinn, sendi inn fjögur reykkafaragengi í leit og björgun.

Á vegi reykkafara voru uppsettar hindranir sem gerði leit og björgun erfiða m.a. höfðu aðalrými vélsmiðjunnar verið fyllt af gervireyk og því mjög myrkvuð, brúðum (fórnarlömbum) hafði verið komið fyrir á hinum ýmsu stöðum í vélsmiðjunni og þurftu reykkafarar að finna þær og koma þeim út. Reykkafarar æfðu notkun hitamyndavélar sem gerði þeim auðveldara að greina innraskipulag s.s. stiga á milli hæða, hurðir á milli rýma, búnað og lager og ýmsar hindranir og hættur.

Í lokin var fundað á slökkviliðsstöðinni, rætt var um það sem betur mátti fara, slökkviliðsmenn ræddu almennt um bygginguna þ.e. stærð hennar, starfsemi, breytileg verkefni og ýmsa möguleika um hvernig best væri að bregðast við bæði sjúkratilfellum, mengunaróhöppum og brunum.

Æfingin tókst í heild sinni vel; mjög gagnleg. Samtals voru um 18 Slökkviliðs-og sjúkraflutningamenn BS sem tóku þátt og viljum við þakka starfsmönnum og forráðamönnum Norma fyrir góða samvinnu og fyrir að fá að nota húsnæðið í þessum tilgangi.

(Sigm. Eyþórs.)
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024