Æfa viðbrögð við flugslysi á morgun
Keflavíkurflugvöllur ohf. og lögreglustjórinn á Suðurnesjum, í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, efna til umfangsmikillar viðbragðsæfingar samkvæmt neyðaráætlun vegna flugverndar og flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll næstkomandi laugardag, 18. apríl n.k.
Æfingin er almannavarnaæfing þar sem allir viðbragðsþættir eru prófaðir fyrstu klukkustundir eftir flugslys. Líkt er eftir sprengjuhótun um borð í flugvél sem endar með slysi eftir lendingu og æfð samvinna viðbragðsaðila með áherslu á samþættingu beggja áætlana.
Er þetta í fyrsta sinn sem viðbrögð eru æfð samkvæmt báðum þessum áætlunum samtímis.
Þátttakendur í æfingunni eru allir viðbragðsaðilar á Suðurnesjum, slökkvilið, björgunarsveitir, sjúkraflutningar, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, lögregla, Landhelgisgæslan og flugrekstrar- og þjónustuaðilar ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra og Samhæfingarstöðinni Skógarhlíð, alls rúmlega 300 manns. Undirbúningur æfingarinnar hefur staðið um allangt skeið en svo umfangsmikil æfing var síðast haldin á Keflavíkurflugvelli haustið 2004.
Flugslysaáætlun segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða í kjölfar flugslyss á Keflavíkurflugvelli eða annarsstaðar á Reykjanesskaga en neyðaráætlun vegna flugverndar um skipulag og stjórnun aðgerða vegna flugrána, sprengjuhótunar eða hliðstæðra atvika á Keflavíkurflugvelli.