Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Æ fleiri jákvæðir um flutning Gæslunnar
    Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar.
  • Æ fleiri jákvæðir um flutning Gæslunnar
    Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Fimmtudagur 3. júlí 2014 kl. 14:30

Æ fleiri jákvæðir um flutning Gæslunnar

Nægt pláss í Reykjanesbæ, segir þingkona.

„Allir þingmenn kjördæmisins eru á sama máli með þetta mál en það skarast á milli innanríkis- og utanríkisráðuneytisins. Þess vegna er erfitt að koma því áfram og því verðum við að hafa trú á því. Öll rök hníga að því að flytja Gæsluna suðureftir vegna þess að aðstaðan er sprungin á Reykjavíkurflugvelli. Þeir fá ekki meira pláss þar,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi. Hún flutti þingsályktunartillögu síðasta haust þar sem hún mælti fyrir því að Landhelgisgæslan yrði flutt til Reykjanesbæjar. Í kjölfarið var óskað eftir umsögnum nokkurra hagsmunaaðila. Þær hefðu bara mátt vera ítarlegri.

Fólk varð gapandi hissa yfir aðstöðunni
Silja horfir á þetta mál sem almannahagsmunamál og segist hafa talað við margt fólk um það síðan hún byrjaði að vinna í því. „Ég heyri æ fleiri starfsmenn Gæslunnar vera jákvæða og það er breyting frá því sem fyrst var. Fólk fór alveg í baklás til að byrja með. Það er núna svona meiri tregða því það er til staðar nokkurs konar Skógarhlíðarklíka; fólk sem barðist fyrir Skógarhlíðinni,“ segir Silja Dögg. Fólk hafi síðan orðið gapandi þegar það sá aðstöðuna uppi á Ásbrú og húsakostinn. „Það þyrfti bara að fá fleiri til að sjá það. Þetta er bara tilbúið á öryggissvæðinu. Það er ekki pláss fyrir tæki og tól á Reykjavíkurflugvelli og Gæslan er á undanþágu frá heilbrigðiseftirlitinu vegna þrengsla og úr sér gegninna húskosta.“

Bölvað væl
Spurð um viðbrögð við fyrirhuguðum flutningi Fiskistofu til Akureyrar segir Silja Dögg að henni finnist mikilvægt að styrkja landabyggðina og besta mál að störf flytjist þangað. Hún nefnir Byggðastofnun sem dæmi. „Mér finnst þetta bara bölvað væl. Auðvitað er einstaklingsbundið í hvaða störfum það er. Á heildina litið er þetta jákvætt og styrkir landsbyggðina að flytja stofnanir, þar sem það á við, út á land,“ segir Silja Dögg.  

Miðstöð leitar og björgunar
Varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum á Suðurnesjum segir Silja Dögg að búið sé að gera fjárfestingarsamning eins og t.d. varðandi Algalíf og einhver hreyfing sé á Helguvíkurmálinu. „Utanríkisráðherra hefur einnig lýst því yfir oftar en einu sinni að hann sjái miðstöð leitar og björgunar á Suðurnesjum. Það styður enn frekar við það að flytja Landhelgisgæsluna suðureftir.“ Spurð um akstur starfsmanna Landhelgisgæslunnar til og frá vinnu ef af flutningi verður segir Silja að alltaf sé einhver starfsmannavelta og fleiri Suðurnesjamenn myndu eflaust sækja um störf. „Við munum halda áfram að jugga í þessu, tala um það og benda á kostina. Þá tekst þetta vonandi á endanum,“ segir Silja Dögg. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024