Aðventugarðurinn opnaður
Aðventugarðurinn í Reykjanesbæ hefur verið formlega opnaður. Það var gert með aðventugöngu föstudaginn 1. desember þar sem gengið var úr Aðventugarðinum í fylgd jólasveina og Grýlu gömlu yfir í Skessuhelli þar sem Fjóla tröllastelpa tók á móti mannskapnum og sungin voru jólalög. Síðan var gengið til baka í Aðventugarðinn þar sem ljósin voru tendruð á jólatré Aðventugarðsins og öllum boðið upp á heitt kakó og piparkökur.
Aðventugarðurinn verður opinn um helgar til jóla og verður dagskrá í garðinum laugardaga og sunnudaga. Meðal þess sem var á dagskrá síðustu helgar var ratleikur, jólaball með jólasveinum Aðventugarðsins, heimsókn frá risastórum ísbirni, snjóprinsessunni og fjallamanninum, Jóliver frá Sirkus Íslands og Lalla töframanni. Þá lék Kósýbandið ljúfa tóna auk þess sem atriði frá Leikfélagi Keflavíkur úr Jólasögu í Aðventugarðinum var flutt. Alla dagskrá og nákvæmari tímasetningar er að finna á vefnum visitreykjanesbaer.is. Aðventugarðurinn verður opinn allar helgar í desember frá kl. 14-17 og á Þorláksmessu frá kl. 18-21.
Þá er Aðventusvellið, með nýbrýndum og fínum skautum, komið á syngjandi siglingu og þar gefst fjölskyldum einstakt tækifæri til að upplifa saman gleðilegar stundir með hressandi útivist og hreyfingu. Opið er á svellinu föstudaga til sunnudags. Allar nánari upplýsingar um svellið eru á adventusvellid.is.