Aðstoða fólk með skerta starfsgetu til starfa
Fulltrúar Vinnumálastofnunar, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands heimsóttu Sveitarfélagið Garð á dögunum og ræddu um samstarfsverkefni þessara aðila sem ber heitið „Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana“. Um er að ræða verkefni sem miðar að því að aðstoða fólk með skerta starfsgetu til starfa.
Atvinnuleitendur úr þeirra hópi hafa sína hæfileika eins og allir aðrir og það er mikilvægt fyrir samfélagið að nýta þann mannauð og hæfileika sem þau búa yfir. Vonandi tekst vel til, segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Garðs í pistli á vef bæjarins.
Bæjarstjórinn fékk afhenta skemmtilega gjöf, sem er tákn fyrir þetta verkefni. Gjöfin er Origami fugl í boxi. Origami er gamalt listform, líklega upphaflega frá Japan og er tákn fyrir þakklæti og á að veita hamingju.