Aðstæður kannaðar til að dæla vatni og sjó á eldgos
Sérfræðingar frá Evrópusambandinu kíktu í heimsókn til Grindavíkur í dag til að undirbúa dælingu á vatni og sjó ef til eldgoss kemur, líkt og gert var í Vestmannaeyjum en ef það hefði ekki verið gert á sínum tíma árið 1973 hefði innsiglingin til Vestmannaeyja mjög líklega lokast og spurnig hvort byggð hefði þrifist þar.
Einar Sveinn Jónsson er slökkviliðsstjóri í Grindavík og fór með sérfræðinga Evrópusambandsins í rúnt um Grindavík. „Við erum byrjaðir að undirbúa aðgerðir ef til eldgoss kemur og fengum sérfræðinga frá Evrópusambandinu til að kanna hér aðstæður. Þessir aðilar eru sérfræðingar á sviði dælumála, þ.e. að dæla vatni og sjó á eldgosið ef til þess kemur. Þetta gaf góða raun í Vestmannaeyjum á sínum tíma en þá var hægt að dæla sjó beint úr höfninni. Það verður að sjálfsögðu hægt líka í Grindavík en ef gýs nálægt hitaveitunni í Svartsengi, þarf að dæla vatni og það verður tekið úr affallinu frá Matorku í Arfadalsvík sem er á milli Bjarnagjár og Matorku. Þannig getum við dælt um 600 lítrum á sekúndu svo afkastagetan verður mjög mikil. Búnaðurinn til að dæla slíku magni er ekki til hér á landi en verður fluttur til landsins svo viðbragðið verði sem styðst. Þetta yrði mun stærri aðgerð en í Vestmannaeyjum því hægt var að dæla stutta vegalengd beint úr höfninni en ég er sannfærður um að við verðum vel í stakk búnir ef til til eldgoss kemur,“ sagði Einar Sveinn.