Aðsókn að Víkurfréttum á Netinu slær met
Netútgáfa Víkurfrétta, www.vf.is, sló öll fyrri aðsóknarmet í síðustu viku, þvert á það sem gerðist hjá öðrum vefmiðlum í Virkri vefmælingu Modernus. Um páska dregur úr Internetnotkun landsmanna, en vefurinn okkar, www.vf.is náði sögulegu meti þegar 8.364 einstaklingar heimsóttu vefsíðuna í 20.312 innlitum. Í síðustu viku voru 94.104 fréttir eða myndir skoðaðar, sem er mesti fjöldi flettinga á síðunni á einni viku. Vöxtur Víkurfrétta á netinu var um 12,9% á milli vikna og segir í pistli Modernus á www.teljari.is að vöxtur Víkurfrétta vekji athygli á sama tíma og allir aðrir fréttamiðlar dala. Víkurfréttir á Netinu eru í dag fjórði stærsti íslenski fréttamiðillinn á Netinu og 13. stærsti vefur landsins.Heimsóknir á vef Víkurfrétta í þessari viku lofuðu einnig góðu þegar þessi frétt var skrifuð um hádegi á miðvikudag. Þá voru gestir vikunnar orðnir 3500 og innlitin um 11.000. Flettingar á síðunni voru hins vegar að slá öll met svo um munar en þær voru orðnar um 120.000 á hádegi á miðvikudag. Þar voru mannlífs-myndir frá dansleik í Stapa að spila stóra rullu og það að vinsæll vefur hjá ungu fólki setti krækju á fréttina um dansleikinn. Vefur Víkurfrétta hefur verið að sækja í sig veðrið á auglýsingamarkaði, en fjölmörg fyrirtæki hafa verið að átta sig á umfangi og virkni vefjarins. Þannig hafa breytingar sem gerðar voru á www.vf.is fyrir nokkrum vikum mælst vel fyrir og frekari breytinga er að vænta nú í sumarbyrjun, m.a. síður fyrir ungt fólk, svo eitthvað sé nefnt.