Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 23. apríl 2002 kl. 10:10

Aðmírállinn fjarlægi mengaða jarðveginn

Eigendur Stafneslands, sem liggur fast að nýjun geymslustað olíumengaðs jarðvegs af Nikkelsvæðinu svokallaða ofan við Ytri-Njarðvík, hafa krafist þess í bréfi til aðmírálsins í herstöð Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvelli að jarðvegurinn verði fluttur annað. Einn landeigandanna, Gísli Hermannsson, segir bréfin hafa verið send fyrir nokkrum vikum. Engin svör hafi borist. Gísli segir Stafneslandið hafa verið tekið eignarnámi í hlutum frá árinu 1941 til ársins 1984. Upphaflega hafi það verið um 2200 hektarar. Nú séu um 100 hektarar eftir við ströndina. Þá væri við eðlilegar aðstæður hægt að nýta á ýmsan hátt:

"Skömmu eftir eignarnámið var byrjað að útbúa ruslahauga við lóðarmörkin hjá okkur. Nú bætist úrgangurinn frá Nikkelsvæðinu við. Það er engin spurning að mengun frá honum berst yfir til okkar. Þessi umsvif hafa hindrað alla framþróun hér síðustu 60 árin," segir hann.

Að sögn Magnúsar H. Guðjónssonar, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, á að slá tvær flugur í einu höggi. Jarðvegurinn af Nikkelsvæðinu verði notaður til að hylja gamla öskuhauga sem fyrir eru á nýja staðnum. Efnið verði hins vegar haft í haugum næstu tvo til þrjú árin á meðan öll olía er hreinsuð úr honum með viðurkenndum aðferðum. Þær felist í því að jarðvegsbakterírur éti upp olíuna.

Magnús fullyrðir að engin mengunarhætta stafi af þessum framkvæmdum fyrir landeigendurna handan landamerkjanna. Hann segist ekkert botna í tortryggni eigenda Stafneslandsins. Málið sé rannsakað í þaula. Engin eiturmengun sé í þeim jarðvegi sem fluttur hefur verið. Tíu rúmmetrar af pcb-menguðum jarðvegi hafi hins vegar verið fluttar til Reykjavíkur og bíði flutnings til Danmerkur þar sem þeim verður eytt.

"Við höfum boðist til að leggja fram öll okkar gögn fyrir þetta fólk. Við skiljum ekki hvað það er hrætt við. Það hefur ekkert að óttast," segir Magnús.

Visir.is greinir frá þessu í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024