Aðgerðaráætlun Keflavíkurflugvallar í loftslagsmálum fær alþjóðlega vottun
Stefna Keflavíkurflugvallar í loftslagsmálum, og aðgerðir að því að draga úr kolefnisspori flugvallarins í heild, hafa hlotið fjórða stig kolefnisvottunarkerfis Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI). „Við erum á góðri leið með að ná takmarki okkar um kolefnaleysi í eigin rekstri fyrir árið 2030,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia.
Kolefnisvottunarkerfið, ACA (Airport Carbon Accreditation), metur það hvort flugvellir séu að mæla kolefnislosun með réttum hætti og metur einnig árangur aðgerða til að minnka kolefnisspor þeirra. Markmiðið er að draga úr umhverfisáhrifum flugvalla með því að mæla kolefnislosun, stýra henni og minnka.
Það er yfirlýst markmið Isavia að starfsemi Keflavíkurflugvallar verði orðin kolefnislaus árið 2030. Þeim árangri verður náð með samstarfi við hagaðila, virkri vöktun á umhverfisþáttum, orkuskiptum og með viðurkenndri kolefnisjöfnun eftir þörfum.
Til þess að ná þeim markmiðum var í fyrra lögð áhersla á að reikna kolefnisspor allrar virðiskeðju flugvallarins. Þar er átt við losun hjá öllum fyrirtækjum og aðilum sem ekki eru undir stjórn Isavia en tilheyra aðfanga- og virðiskeðju félagsins. Með því að ná fjórða stigi af sex í vottunarkerfi ACE hefur þessi útreikningur ekki aðeins verið vottaður af óháðum alþjóðlegum aðila, heldur einnig aðgerðir okkar til að minnka losun og jafna með viðurkenndum hætti.
Árangurinn er ekki síst til kominn vegna samstarfs meðlima flugvallarsamfélagsins á Keflavíkurflugvelli. Til að ná utan um heildarlosun flugvallarins var komið á samstarfsvettvangi allra þessara aðila með það að markmiði að finna leiðir til að minnka kolefnisspor flugvallarins í heild sinni, segir í frétt frá Isavia.
Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia:
„Félagið hefur, í samræmi við sjálfbærnistefnu sína, haft það að leiðarljósi að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni í lágmarki í sátt og samvinnu við hagaðila. Þessi vottun sem Keflavíkurflugvöllur hefur fengið í dag, fjórða stig í ACA kolefnisvottunarkerfi ACI, er staðfesting á að við erum á réttri leið og sýnir og sannar að við erum að ná áþreifanlegum árangri í okkar vinnu við að draga úr kolefnislosun..“
Olivier Jankovec, forstjóri ACI EUROPE:
„Ég óska Keflavíkurflugvelli innilega til hamingju með að hafa hlotið þessa vottun. Flugvöllurinn hefur skuldbundið sig til að ná fullu kolefnishlutleysi fyrir árið 2030 sem er hluti af skuldbindingu flugvallaiðnaðarins í heild sinni, sem staðfest var í síðasta mánuði og þessi nýja vottun sýnir að flugvöllurinn er að ná áþreifanlegum framförum í átt að því markmiði. Keflavíkurflugvöllur stendur við stóru orðin - skilar áþreifanlegri minnkun í beinni losun koltvísýrings og vegur upp á móti annarri losun, en hefur einnig samskipti við rekstraraðila sína þannig að þeir minnki líka sína eigin losun. Vel gert!“