Aðeins þriðjungur nemenda í FS rúmast í matsalnum
-Skólann sárvantar stærra húsnæði. „Skiljum ekki hvað tefur þetta mál,“ segja forráðamenn FS.
„Við erum búin að vera að leita eftir að auka félagsrými skólans. Í dag stunda 900 nemendur nám við fjölbrautaskólann en matsalurinn rúmar aðeins 350 nemendur í sæti. Það segir sig sjálft að við getum ekki haft þetta svona. Skólahúsnæðið er löngu sprungið. Við erum að tala um viðbyggingu sem á að vera mjög einföld og frumdrög liggja fyrir,“ segir Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Já við viljum fara í frumvinnuna svo hægt sé að koma þessu í útboð. Frumvinnan þarf að fara fram núna svo hægt sé að fara í að smíða í sumar. Það væri það allra besta í stöðunni,“ segir Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari skólans.
Þau segjast ekki skilja hvað tefur málið, hvers vegna málið þokast svona hægt áfram því þingmenn svæðisins eru að hjálpa til en þeir virðast tala fyrir daufum eyrum ráðamanna.
„Svæðið er orðið stærsta atvinnusvæði landsins. Það er þetta svæði sem er að vaxa mest. Við byrjuðum að tala um þessa þörf á stækkun skólans fyrir fjórum árum. Þingmennirnir okkar eru að gera sitt besta en af einhverjum ástæðum er ekki hlustað á þá. Þetta mál er stopp einhvers staðar í kerfinu. Það þarf að spíta í lófana og koma þessu verkefni af stað hið fyrsta. Við búum á Íslandi og sumarið er stutt en það er draumur okkar að ráðist verði í viðbyggingu næsta sumar svo að skólastarf raskist ekki en þá þarf að setja ferlið í gang núna. Það má ekki draga þetta lengur,“ segir Kristján sem skilur ekki hvers vegna Suðurnes þurfi ætíð að þrábiðja um fjárveitingar til svæðisins.
Skólahúsnæðið er einfaldlega sprungið!
„Ráðstafanir skólans hafa heppnast vel sem miða að því að minnka brotthvarf nemenda okkar. Nemendum þarf einnig að líða vel félagslega og þess vegna styðjum við góðar hugmyndir nemenda um félagsstarf. Þetta starf skiptir máli fyrir andlega líðan nemenda. Á árunum 19 til 20 ára er félagsþroski ungs fólks að mótast. Félagslífið hefur einnig mikið að segja upp á ímynd skólans útávið. En þó að félagslífið sé ótrúlega blómlegt í FS er aðstaðan engin til þess að þjóna því og höfum við þurft að fá lánað húsnæði úti í bæ vegna þessa því húsnæðið okkar er löngu sprungið,“ segir Guðlaug.
Aukið fé til Suðurnesja
„Við viljum þjónusta alla nemendur og til þess að mæta ört vaxandi skólastarfi þá verður að auka fjármuni til skólans. Yfirvöld verða að átta sig á þessu áður en það verður um seinan. Húsnæðið þarf að vera í takt við starfið sem fer fram innandyra. Við þurfum matsal sem rúmar alla nemendur á matmálstíma en útskriftir og fleiri viðburðir fara einnig fram á matsal skólans. Það sjá það allir sem vilja að það verður að vera pláss þar fyrir alla nemendur okkar í einu. Í dag veldur þetta miklum vandræðum við útskrift nemenda,“ segir Kristján að lokum.
Eitt stærsta atvinnusvæði landsins
Suðurnesin hafa þróast yfir í að verða eitt stærsta atvinnusvæði Íslands utan höfuðborgarsvæðisins. Vissulega er aukin atvinna mest tengd flugstarfsemi og stóriðja svæðisins er tvímælalaust flugstöðin. Suðurnesin hafa einnig lokkað til sín nýja íbúa af höfuðborgarsvæðinu vegna ódýrara húsnæðis hér.
Þrátt fyrir að Suðurnesin séu það landsvæði sem hefur vaxið langmest undanfarin ár þá hafa stjórnvöld ekki látið meira fé renna til uppbyggingar innviða á svæðinu. Þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað hlutfallslega mest hér og að fordæmalaus fólksfjölgun hafi átt sér stað í Reykjanesbæ undanfarin misseri, þá bíða mörg brýn erindi ennþá afgreiðslu yfirvalda sem virðast ekki gera sér grein fyrir því að fólksfjölgun kalli á auknar fjárveitingar til uppbyggingar svæðisins.
Samsetning íbúa á Suðurnesjum hefur einnig breyst mikið en aukin atvinna við flugstöðina hefur kallað eftir miklu fleiri erlendum starfsmönnum til að sinna öllum þeim störfum sem þar bjóðast. Íslendingar geta ekki annað þessu öllu án aðstoðar erlends vinnuafls.
Með erlendum starfsmönnum flytja oft fjölskyldur þeirra til landsins, börn á öllum aldri. Samsetning nemenda við skólanna á svæðinu hafa því skapað alls konar áskoranir fyrir stjórnendur skóla og þar á meðal við Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þar hefur nemendum einnig fjölgað mjög hratt síðustu ár og telja nemendur skólans nú um 900 talsins og 18 þjóðerni.