Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðeins einn í valnefnd valdi Sigfús
Þriðjudagur 11. apríl 2006 kl. 09:57

Aðeins einn í valnefnd valdi Sigfús

Aðeins einn fulltrúi í valnefnd Keflavíkurkirkju, Gunnar Sveinsson, mælti með að sr. Sigfús B. Ingvason yrði ráðinn sem sóknarprestur. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag og er vitnað í fundargerð valnefndarinnar.

Meirihlutinn, sem var skipaður þeim Halldór Leví Björnssyni, Önnu Jónsdóttur, Ragnheiði Ástu Magnúsdóttur, Birgi Guðnasyni og Sigurði Sigurðarsyni, vígslubiskupi, rökstuddi val sitt á séra Skúla S. Ólafssyni með því að segja að umsókn hans og framkoma á valnefndarfundi hafi borið vott um vöndun sem skaraði fram úr því sem fram hafi komið hjá öðrum umsækjendum.
„Séra Skúli býr yfir fjölþættri reynslu sem prestur og hefur sýnt fram á að hann er vel fær um að fóta sig í nýjum aðstæðum. Röksemdir hans fyrir því hvernig hann geti uppfyllt kröfur þær sem gerðar eru í auglýsingu virðast sannfærandi. Þar er átt við [...] um víðtæka reynslu af kirkjulegu starfi, færni í predikun og helgiþjónustu, leiðtogahæfileika og samstarfsvilja. Valnefndarfólki þessu sýnist að séra Skúli búi yfir þeim styrkleika og þrótti sem þörf er á til að leiða starfið í kröfuhörðu prestakalli sem þessu,“ segir meirihlutinn og lýsir jafnframt þeim einlæga vilja sínum að séra Sigfús gegni áfram embætti prests við Keflavíkurkirkju.

Gunnar Sveinsson gerði ágreining við valið og vildi mæla með séra Sigfúsi B. Ingvasyni. Hann rökstuddi afstöðu sína með því að segja að Sigfús hafi þjónað sem prestur í Keflavíkurkirkju sl. þrettán ár af einstakri trúmennsku og skyldurækni, oft við mjög erfiðar aðstæður. Hann væri vinsæll meðal sóknarbarna og ætti mjög létt með mannleg samskipti. Hann væri trúaður og samvinnuþýður og gott með honum að vinna. Þá getur hann þess að Sigfús hafi á ferli sínum sinnt meira en helmingi af þjónustuþörfum í sókninni, að beiðni sóknarbarna.

Nær 4700 manns hafa nú skráð sig á stuðningsmannalistann fyrir séra Sigfús, en alls eru um 5500 fulltíða sóknarbörn í prestakallinu.

Af mbl.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024