Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðeins 45% nýta sér hvatagreiðslur Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 17. mars 2010 kl. 11:22

Aðeins 45% nýta sér hvatagreiðslur Reykjanesbæjar


Aðeins 45% ungmenna á aldrinum 6-18 ára nýta sér hvatagreiðslur þær sem bærinn býður foreldrum til íþrótta- og tómstundastarfs barna. Heildargreiðslur Reykjanesbæjar vegna hvatagreiðslna námu tæpum 6,2 milljónum á síðasta ári. Þetta kom fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær við fyrirspurn Guðbrands Einarssonar, oddvita A-lista.

„Það er tvennt sem vekur athygli þegar þetta er skoðað.  Í fyrsta lagi hversu lág þessi upphæð er sem verið er að setja í þetta eða rétt rúmar 6 milljónir og síðan hversu lítill hluti foreldra nýtir sér þetta.
Útgjöld sveitarfélagsins yrðu ekki hærri en rétt rúmar 12 milljónir þó að allir foreldrar nýttu sér þetta.  Ef við gefum okkur að hvatagreiðslur yrðu hækkaðar í 15 þúsund krónur þá yrðu heildarútgjöld bæjarins af þessu alltaf innan við 30 milljónir króna.
Og það eru líka smáaurar sé litið til þess hvernig fjármunum hefur verið
varið í þessu sveitarfélagi,“ segir Guðbrandur.

Reykjanesbær greiðir sjö þúsund krónur árlega með hverju barni en foreldrar þurfa að sækja um greiðslurnar í gegnum vefinn mittreykjanes.is. Hvatagreiðslur til 14 ára ungmenna eru skilyrtar því að foreldrar þeirra sæki fræðslufund hjá Reykjanesbæ um það helsta sem hafa ber í huga við uppeldi ungmenna.

Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi A-lista, sagðist hissa á hverju lágt hlutfall iðkenda nýtti sér hvatagreiðslurnar. Hann sagði Reykjanesbæ langt að baki nálægum sveitarfélögum og nefndi m.a. Hafnarfjarðarbæ sem greiðir 32 þúsund krónur a hvert barn og Grindavíkurbæ sem niðurgreiðir íþróttaiðkun að fullu. Reykjanesbær þyrfti að lyfta grettistaki í þessum málum ekki síst í þessu árferði.

Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði að þegar farið var af stað með þessar greiðslur á sínum tíma hefði verið vitað að einhvern tíma tæki að koma þeim á.
Hann sagði greiðslurnar vel kynntar á hverju sumri í bæklingi sem dreift væri inn á heimili. Engu að síður væri ástæða til að skoða af hverju aðeins 45% ungmenna nýttu sér hvatagreiðslurnar.
„Ég geri hins vegar athugasemndir við að verið sé að bera þetta saman krónutölulega við önnur sveitarfélög. Við höfum farið yfir það oft að hér að Reykjanessbær leggur fjármuni með öðrum hætti til þjálfunar yngri barna meðal annars með því að greiða beint til íþróttafélaganna og eru lagðir í það umtalsverðir fjármunir á hverju ári í gegnum íþróttasjóð. Við höfum líka rætt um það hér hvort það væri ástæða til að gera breytingu á þeim styrkjum og setja þá inn í þessar hvatagreiðslur þannig að þær yrðu hærri og kæmu þá til lækkunar á beinum styrkjum til íþróttafélaganna. Það hefur verið rætt en ekki fengist nein niðurstaða í það hjá íþróttaráði,“ sagði Böðvar sem taldi ástæðu til að taka þessi mál til umfjöllunar. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024