Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðeins 25% nýta sér hvatagreiðslurnar
Miðvikudagur 5. nóvember 2008 kl. 10:03

Aðeins 25% nýta sér hvatagreiðslurnar



Komið hefur í ljós að eingöngu 25% foreldra í Reykjanesbæ nýta sér svokallaðar hvatagreiðslur sem bæjarsjóður greiðir til menningar, - íþrótta- og tómstundastarfs fyrir börn á aldrinum 6 – 18 ára.

Á nýlegum fundi Íþrótta- og tómstundaráðs lýsti ráðið undrun sinni á því hver fáir nýta sér þennan styrk, en hann nemur sjö þúsund krónum á barn.  Eigi síður hafi þessar greiðslur verið vel kynntar.

Þegar foreldrar skrá börn sín í menningar-, íþrótta- og tómstundastarf þarf að taka fram að þeir hyggist nýta sér hvatagreiðsluna. Þá er gefinn út greiðsluseðill fyrir upphæðinni. Að svo búnu þarf fólk að virkja aðgang sinn að sérstökum íbúavef, mittreykjanes.is þar sem greiðsluseðilinn er innheimtur, burtséð frá því hvort viðkomandi hafi áhuga á því að vera skráður notandi á tilteknum vef eða ekki.

Þar með er ekki öll sagan sögð því ef barnið er á aldrinum 14 -18 ára er greiðslan skilyrt því að foreldranir sitji sérstakan fræðslufund um uppeldismál, burtséð frá því hvort þeir hafi áhuga á að sitja slíkan fund eða ekki.

Málið kom til umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær. Fulltrúar A-listans, Guðbrandur Einarsson og Ólafur Thordersen, töldu ástæðuna fyrir dræmum áhuga á hvatagreiðslunum vera of flókið ferli til að nálgast þær.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna, sagði sjálfsagt að skoða hvort svo væri og þá hvort hægt væri að einfalda fyrirkomulagið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/Þorgils: Ungir körfuboltasnillingar í Reykjanesbæ. Bæjarsjóður greiðir 7000 krónur í svokallaðar hvatagreiðslur til menningar,- íþrótta- og tómstundastarfs. Aðeins 25% foreldra nýta sér þessar greiðslur.