Aðdróttanir leikmanns Grindavíkur
Mikill styr hefur staðið um Orra Frey Hjaltalín, leikmann knattspyrnuliðs Grindavíkur, í dag. Hann varð uppvís að svívirðingum í garð ýmissa aðila sem koma að knattspyrnunni, m.a. dómurum, þjálfurum og jafnvel forseta Íslands.
Vefsíðan fotbolti.net birti í gær úrdrátt af heimasíðu Orra Freys þar sem hann eys óhróðri yfir nafngreinda menn.
„Þetta átti aldrei að fara út í svona,“ sagði Orri í samtali viðVíkurfréttir í dag. „Ég var bara að fíflast og bjóst ekki við því að svo margir sæju þetta. Ég skrifaði þetta oft í reiði eftir leiki.“
„Þetta er alls ekki líkt mér því ég hef aldrei kvartað undan dómgæslu í leikjum.“ sagði Orri að lokum. Hann sagðist þegar hafa sent afsökunarbeiðni á fotbolti.net þar sem hann dregur orð sín til baka og bætti því við að hann hugðist á næstunni ræða við nokkra af þeim sem hann ræddi um í skrifum sínum.
Hér á eftir fer afsökunarbeiðni Orra sem birtist á fotbolti.net:
Góðir hálsar,
vildi bara biðjast afsökunar á þessum skrifum mínum sem eru meira skrifaðar til gamans heldur en til að stofna til einhverra illinda og átti þetta ekki að vera öllum sýnilegt heldur var þetta skrifað á þeim vettvangi þar sem einstaka menn gátu lesið og endurspeglar þetta alls ekki viðhorf leikmenn Grindarvíkurliðsins né stjórnarmanna heldur er þetta bara eitthvert rugl sem maður lætur frá sér til dægrarstyttingar. Ég undirritaður er að sjálfsögðu ekki alltaf sáttur við störf dómara en ég hef aldrei verið svo djarfur að fara með það í fjölmiðla enda gera þeir mistök eins og við allir. Vona bara að menn hafi ekki tekið þetta of alvarlega og megi því þetta vera gleymt og grafið.
Fótboltakveðja Orri Hjaltalín
VF-mynd/Hilmar Bragi: Orri skorar gegn Keflavík