Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Aðalskipulagið er stórt verkefni og mikilvægt
Magnús Stefánsson er bæjarstjóri í Sameinuðu Sandgerði og Garði
Þriðjudagur 4. september 2018 kl. 09:13

Aðalskipulagið er stórt verkefni og mikilvægt

- bæjarbúar fá að kjósa að nýju um nafn á sveitarfélagið

Magnús Stefánsson er nýráðinn bæjarstjóri í Sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs. Á fundi bæjarstjórnar þann 18. júlí var samþykkt tillaga um að Magnús verði ráðinn bæjarstjóri kjörtímabilið 2018–2022. Magnús er viðskiptafræðingur MBA að mennt og fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og bæjarstjóri í Garði. Magnús var valinn úr hópi fjórtán umsækjenda um starf bæjarstjóra og naut bæjarstjórn aðstoðar Hagvangs við ráðningarferlið.
 
„Starf mitt sem bæjarstjóri í Garði var eins og það var en þetta starf núna er allt öðruvísi. Þetta er ekki sambærilegt að mörgu leiti. Það er áskorun í starfinu sem ég er spenntur í að vinna að. Þetta leggst vel í mig. Það er heilmikið verkefni að sameina tvö sveitarfélög og það ferli er á fullu og mörg verkefni sem fylgja því,“ segir Magnús Stefánsson, nýráðinn bæjarstjóri í samtali við Víkurfréttir.
 
Þú þekkir þetta sameiningarferli sem er í gangi. Þú varst áður bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Garði.
„Já, við voru að vinna að þessu verkefni í rúmlega tvö ár og fórum í gegnum ýmislegt og margskonar pælingar, þannig að ég þekki þetta og þær hugmyndir sem hafa verið uppi varðandi þessa sameiningu. Það er gott fyrir mig í áframhaldandi vinnu“.
 
Hvað tekur núna við hjá hinum sameinaða sveitarfélagi? Hver verða fyrstu skrefin núna á þessu kjörtímabili sem er nýlega hafið?
„Númer eitt á þessum tíma er að klára ýmis verkefni er snúa að sameiningu þessara sveitarfélaga í eitt. Það eru ótal atriði, bæri stór og smá. Við erum að tala um fjárhagsbókhald, launakerfi og slíkt. Það er margt sem þarf að koma heim og saman þannig að þetta er töluvert mikið verkefni og meira verkefni heldur en menn almennt gera sér grein fyrir“.
 
Verða íbúarnir almennt varir við einhverjar breytingar?
„Öll þjónusta sveitarfélaganna sem hefur verið mun halda áfram. Grunnskólar og leikskólar verða með sama horfi og áður. Þegar frá líður og stjórnkerfið er farið að virka vel í einu sveitarfélagi þá batnar vonandi þjónusta af ýmsu leiti en það er eitt af markmiðunum með þessu“.
 
Nú eru tvær bæjarskrifstofur í nýju sveitarfélagi og þið hafið skipt verkefnum niður á þessar skrifstofur. Hvernig verður þetta?
„Það var tekin ákvörðun um það að stjórnsýslan og umhverfis- og byggingasvið verði á skrifstofunni í Garði. Fjölskyldusviðið, sem snýr að félags- og skólamálum og almennt að fjölskyldu- og tómstundamálum, er með aðsetur í Sandgerði. Bæjarstjórinn þarf að vera báðum megin þó svo aðalskrifstofan sé stjórnsýslumegin í Garðinum. Þetta er töluverð breyting frá því sem var áður. Þetta er verkefni sem á eftir að mótast og ég hef enga trú aðra en að þetta eigi eftir að verða gott þegar þetta hefur liðkast og skipulagið fer að virka“.
 
Hvernig verður samgöngumálum á milli bæjarkjarnanna háttað?
„Það voru umræður í aðdraganda sameiningar að efla almenningssamgöngur á milli byggðakjarnanna. Það liggja ekki fyrir endanlegar ákvarðanir um það en hugmyndir í gangi sem tíminn verður að leiða í ljós. Ég held að það séu allir sammála um það að það þurfi að auka samgöngur hér á milli. Það eru íþróttaæfingar á báðum stöðum og svo einnig þarf fólk að sækja þjónustu hjá sveitarfélaginu á báðum stöðum, auk þess sem fólk sækir atvinnu á milli byggðakjarnanna. Þetta eru mál sem voru rædd og ég geri ráð fyrir að menn taki upp þráðinn í því þegar frá líður“.
 
Hver eru næstu stóru verkefni hjá nýju sameinuðu sveitarfélagi?
„Ég myndi segja að stóra verkefnið sé að það þarf að vinna nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Það er stórt verkefni og mikilvægt. Það er stefnumótandi til næstu áratuga hvernig við sjáum fyrir okkur að sveitarfélagið muni þróast og byggjast upp“.
 
Eru hugmyndir um það að láta þessa tvo bæjarkjarna tengjast meira?
„Það er eitt af því sem menn hafa talað um. Það er eitt af verkefnunum í vinnslu aðalskipulags að móta það og hvernig menn sjá það fyrir sér. Þetta verkefni er mikilvægt og stórt og fer af stað núna á næstunni“.
 
Þriðji póllinn í nýju sveitarfélagi er svo flugstöðvarsvæðið við Keflavíkurflugvöll.
„Það má segja að það sé þriðja hverfið í sveitarfélaginu og það er mikið í gangi þar. Við þekkjum það. Flugstöðin er í sveitarfélaginu og allar byggingar í kringum hana og það er mikilvægt svæði sem tengist sveitarfélaginu“.
 
Nú var Sveitarfélagið Garður komið í talsverða skipulagsvinnu við Rósaselstorg, sem er á bæjarmörkunum við Reykjanesbæ, nærri flugvallarsvæðinu. Heldur sú vinna áfram?
„Ég geri alveg ráð fyrir því. Við breyttum aðalskipulagi á því svæði og þar eru uppi hugmyndir um uppbyggingu þar. Það er hins vegar þannig að landssvæðið er í eigu ríkisins og Kadeco fer með eignarhaldið á því þannig að það gerist ekkert í uppbyggingu þar nema í tengslum við Kadeco eða ríkisvaldið. Sveitarfélögin tvö sem voru [innsk.blm.: Garður og Sandgerði] og Reykjanesbær voru búin að leggja í heilmikla vinnu í samstarfi við Kadeco og Isavia um hvernig ætti að byggja upp þetta svæði í kringum flugvöllinn, undir þá vinnu fellur þetta svæði við Rósaselstorg. Það er ekki komin niðurstaða í þetta mál en ég vona að okkur auðnist að koma því á koppinn og að við getum unnið að þessari uppbyggingu á svipaðan hátt og við flugvelli víðast hvar um heiminn þar sem sambærilegir aðilar hafa tekið höndum saman um að þróa og byggja upp á svæðum eins og þessu“.
 
Eitt af stóru málunum er að velja nafn á sveitarfélagið. Það mál hefur ekki gengið vel.
„Nýja bæjarstjórnin tók ákvörðun um það taka málið upp og vinna það upp á nýtt. Það var alltaf þannig að það væri nýrrar bæjarstjórnar að taka ákvörðun um málið. Í sumar tók bæjarstjórn ákvörðun um að vísa málinu til vinnslu í bæjarráði. Bæjarráðið hefur fjallað um þetta og er að leita leiða hvernig sé best að klára málið. Það er aðkallandi að fá botn í þetta og það má nefna fjölmörg dæmi í því sambandi. Bæjarráð mun vonandi leggja tillögur fyrir bæjarstjórn á næsta fundi í byrjun september um það hvernig menn sjá það fyrir sér að ljúka málinu, framkvæma það og taka ákvarðanir. Tillagan liggur ekki fyrir en það er stefnt að því að hún verði tilbúin um mánaðamótin. Þar er ekki verið að tala um tillögur um nöfn á því stigi. Bæjarstjórn mun svo í öllu falli afgreiða málið hvernig þetta verður gert. Hugmyndir gera ráð fyrir að íbúar kjósi aftur um nafn á sveitarfélagið og við höfum mikinn hug á að ljúka þessu máli sem fyrst í haust“.
 
Og að þetta hafi farsælan endi.
„Já,já. Vonandi gerist það. Við vitum að í eðli sínu er þetta mál þannig að það eru skiptar skoðanir og mismunandi tilfinningar og sýn á hvað sveitarfélagið eigi að heita. Það eru skiptar skoðanir á því hvað barnið á að heita“.
Public deli
Public deli