Aðalfundur SSS: Tekist á um ályktun um atvinnumál
Aðeins ein ályktun var samþykkt á aðalfundi SSS sem fram fór um helgina. Hún var um atvinnumál á Suðurnesjum. Ályktunin fór þó ekki átakalaust frá fundinum en hún var samþykkt með átján atkvæðum gegn tólf.
Stjórn SSS lagði fram ályktun um atvinnumál. Það gerði einnig Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Fundarmenn voru sammála um að sterkara væri að senda eina ályktun frá fundinum um atvinnumálin heldur en tvær. Vildi hópur fulltrúa að sameinast yrði um ályktun stjórnarinnar og ályktun sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ yrðu látin fylgja með sem greinargerð. Hinn hópurinn vildi sameina þessar tvær tillögur í eina. Eftir fundarhlé og nokkra umræðu varð niðurstaðan sú að sameina þessar tvær tillögur í eina með smávægilegum orðalagsbreytingum.
Ályktunin er svohljóðandi:
„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík 11. september 2010, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja eðlilegan framgang atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.
Tafir á afgreiðslu raflínulagna, virkjanaleyfa, skattabreytinga vegna gagnavera, leyfa til nýtingar skurðstofa og fyrirgreiðslu við hafnarframkvæmdir eru alvarleg dæmi sem hafa stórskaðað uppbyggingu Suðurnesjamanna.
Aðalfundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún greiði leiðir til uppbyggingar nýrra atvinnutækifæra á svæðinu og að Suðurnesjamenn fái byr í seglin þegar unnið er að nýjum tækifærum í þágu íbúa.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er það mesta á landinu, auk þess sem meðaltekjur íbúa á svæðinu eru með því lægsta sem gerist á landinu. Þörfin fyrir uppbyggingu og ný störf er því mjög knýjandi. Fundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar og Alþingis að þau standi vörð um störf á Suðurnesjum og leggist á árarnar með sveitarstjórnarmönnum, verkalýðsfélögum, atvinnurekendum og íbúum á svæðinu og stuðli að nýjum atvinnutækifærum.
Milljarða hagnaður bæði af sölu ríkisins á Hitaveitu Suðurnesja og sölu á eignum á fyrrum varnarsvæði hefur verið lagður inn í ríkissjóð án þess að Suðurnesjamenn fái notið hans til atvinnuuppbyggingar. Þetta gerist á sama tíma og hér er erfiðasta atvinnuástand á landinu og fjölbreytt og vel launuð atvinnutækifæri bíða afgreiðslu stjórnvalda.
Enn er minnt á að 1100 manns misstu atvinnu sína þegar varnarliðið fór í undanfara efnahagskreppu og að hér er enn mesta atvinnuleysi á landinu. Fjármunir, sem fengust fyrir sölu eigna á varnarsvæðinu, hafa runnið í ríkissjóð svo milljörðum skiptir í stað þess að hafa verið nýttir í skapa grunn að störfum fyrir atvinnulausa íbúa Suðurnesja.
Þau atvinnutækifæri sem unnið hefur verið að á undanförnum árum á Suðurnesjum s.s. álver, kísilver, gagnaver, ECA flugverkefni, einkasjúkrahús, Fisktækniskóli og skólasamfélagið Keilir geta skapað þúsundir starfa á næstu mánuðum og stórbætt efnahag þjóðarinnar allrar um leið og staða íbúa og sveitarfélaga á Suðurnesjum gjörbreytist til hins betra.“