Aðalfundur SSS: Engin niðurstaða í Sameiningarmálum
Enginn niðurstaða fékkst í sameiningarmálum Suðurnesja á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Fundurinn var haldinn í Fræðasetrinu í Sandgerði síðasta laugardag.
Skarpar línur eru enn á milli sveitarfélaganna og hafa bæjarstjórnir Sandgerðis, Garðs og Grindavíkur lýst yfir andstöðu við hugmyndir sameiningarnefndar félagsmálaráðuneytisins. Vogamenn vilja skoða málin með opnum hug og hafa ákveðið að halda íbúafund til að sjá hver vilji íbúana er. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur hins vegar lýst yfir að slík sameining sé skynsamleg til lengri tíma litið.
Á aðalfundinum var staða sveitafélaganna gagnvart ríkisvaldinu rædd í þaula og einnig velt fyrir sér hvert stefndi í nánustu framtíð. Ragnhildur Arnljótsdóttir, nýskipaður ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, tók fyrst til máls og lagði m.a. áherslu á að efling sveitarstjórnarstigsins væri eitt af mikilvægustu verkefnunum sem lægju fyrir ráðuneytinu þessa dagana. Sameining sveitarfélaga hefur mikið verið rædd að undanförnu og vék Ragnhildur að því máli með því að óska þess að sveitarfélögin ynnu saman og horfðu til framtíðar í þessum efnum. Sagði hún að allar tillögur í þessa áttina yrðu sem næstar vilja íbúa sveitarfélaganna.
Mesta umhverfismál sögunnar
Þegar Ragnhildur hafði lokið máli sínu steig Vilhjálmur Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í pontu og flutti sitt ávarp. Hann taldi upp nokkur af þeim góðu verkum sem sveitarfélögin hafa unnið á síðustu árum, m.a. hafi þau unnið ötullega að mesta umhverfisátaki sögunnar hvað varðar sorpurðunarmál, fráveitukerfi og annað. Þá hafa sveitarfélögin unnið af miklum metnaði við að byggja upp íþróttamannvirki um allt land. Engu að síður hefur ekki farið framhjá neinum að fjárhagsstaða sveitarfélaganna hefur orðið sífellt brothættari og vék Vilhjálmur orðum sínum að því málefni.
Vilhjálmur velti upp mörgum tilgátum um orsakir vandans sem við sveitarfélögum blasir. Kenndi hann um þáttum eins og yfirfærslu grunnskólanna til sveitarfélaganna, vandinn sem húsaleigukerfið veldur og kostnaður vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja og annarra framkvæmda á vegum bæjarfélaganna. Þá hafi kröfur um þjónustu aukist mikið og leiðir það allt til þess að efla þarf tekjustofna sveitarfélaganna.
„Ekki er hægt að flytja neina málaflokka til sveitarfélaganna fyrr en búið er að tryggja tekjustofnana,” sagði Vilhjálmur og bætti við að ríkið hefði virkað áhugalaust í þessum málum. Einnig taldi hann að sveitarfélögin ættu helst að bíða með að taka að sér ný verkefni þar til búið væri að sameina þau og sagði raunar sína skoðun að sveitarfélög ættu að sameinast burtséð frá verkefnayfirfærslu frá ríkinu. Horfa þyrfti til framtíðar og þyrftu sveitarfélögin að hafa þetta frumkvæði.Ekki voru allir í salnum sáttir við þessi ummæli Vilhjálms en andsvör biðu þar til eftir ávarp Róberts Ragnarssonar. Hann er starfsmaður verkefnisstjórnarinnar sem sér um sameiningarmál og flutti hann stutta tölu þar sem hann kynnti átakið um eflingu sveitarstjórnastigsins.
Róbert er Suðurnesjamaður og því vel kunnugur staðháttum hér í sveit og hvaða augum margir líta allt sameiningartal. Hann sló því á létta strengi áður en hann hóf mál sitt. „Ég þekki mörg vinaleg andlit hér úti í sal og vona að þau verði jafn vinaleg þegar ég er búinn.” Það stóð ekki á því enda má segja að þó að vissulega hafi menn skipst á skoðunum sínum í sameiningarmálum á þessum fundi var ekki barist eins harkalega og margir höfðu búist við.
Heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði
Róbert ræddi stuttlega tillögur verkefnisstjórnarinnar um breytingu á verkaskiptingu hins opinbera. Markmiðið með frekari sameiningu sveitarfélaganna er að þau myndi heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði og séu í stakk búin og nægilega burðug til að taka á móti verkefnum. Tillögurnar miða að því að skýra verkaskiptingu hins opinbera og lagði Róbert áherslu á að ekki yrði hróflað við skipulagi nema sveitarstjórnum þættu tekjustofnar sem fylgdu ásættanlegir.
Telur nefndin að þessar tillögur, ef þær ná fram að ganga, gætu orðið til góðs og komi til með að styrkja sveitarfélög á Suðurnesjum.
Grindavík fullfært um að sjá um sig
Þegar Róbert hafði lokið máli sínu kvöddu aðilar í salnum sér máls og voru ekki allir á sama máli. Hörður Guðbrandsson, forseti bæjarstjórnar í Grindavík, gagnrýndi harðlega sumt sem hafði komið fram í máli Vilhjálms. Hann velti upp þeirri spurningu hvort Sambandið væri of mikið með hugann við að koma sameiningarmálum í gegn þegar það ætti í raun að vera að vinna að því að sveitarfélögin fengju réttláta sneið af kökunni. Grindavík væri fullfært um að sjá um sig sjálft í flestum málaflokkum og þyrfti ekki á sameiningu að halda.
Garðmenn á móti sameiningu
Einar Jón Pálsson, varaforseti bæjarstjórnar í Garði, tók í svipaðan streng og Hörður og mælti með óbreyttu fyrirkomulagi. Miðað við vöxtinn og framþróunina í Garði undanfarin ár væri sveitarfélagið vel í stakk búið til að taka á móti nýjum verkefnum með tilheyrandi tekjustofnum. Hann benti einnig á að jafnvel þótt allar tillögur sameiningarnefndarinnar gengu í gegn yrðu engu að síður til mun minni sveitarfélög en Garður. Hann var alls ekki sáttur við skýrslu nefndarinnar og sagði engu líkara en að ekkert mark hafi verið tekið á sveitarstjórnarmönnum á samráðsfundunum með nefndinni.
Mikilvægt að kostir séu skoðaðir
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, vildi að hlutaðeigandi kynntu sér kosti sameiningar og þann hag sem hann taldi að slíkt gæti skapað. Hann fór yfir ýmsar tölur sem sýna sterka eignastöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum, en um leið hve litlar tekjur þeirra eru af útsvari og fasteignagjöldum.
Tekjuskipting skoðuð
Eitt af þeim málum sem brann hvað heitast á sveitarstjórnarmönnum var tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga. Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúi frá Reykjanesbæ, líkti sambandinu við foreldri sem lætur ungling fá vasapening og var Jón Gunnarsson, oddviti Vatnsleysustrandarhrepps og Alþingismaður, á sama máli.
Minni sveitarfélög stæðu ein
Á meðan fulltrúar meirihluta í Grindavík, Sandgerði og Garði stigu í pontu og mæltu gegn sameiningu gagnrýndi Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi í Sandgerði, meinta þröngsýni meirihlutans í sameiningarmálum. Hann var hræddur um að minni sveitarfélögin gætu setið eftir ef Reykjanesbær myndi eflast eins mikið og gert var ráð fyrir í framtíðaráætlunum. Hann vildi meiri umræðu um þetta efni og að íbúar fengju að heyra báðar hliðar málsins.
Reynir Sveinsson frá Sandgerði vísaði ásökunum Ólafs á bug og sagði að lýðræðisleg vinnubrögð væru í heiðri höfð í bæjarstjórninni.
Farið var að nálgast lok fundar og lauk Vilhjálmur máli sínu með því að leggja enn áherslu á eflingu sveitarstjórnarstigsins og að sveitarfélögin þyrftu að vinna saman að sínum hagsmunum.
Að því loknu var fundi slitið eftir að búið var að samþykkja ályktanir og tilnefna í stjórn SSS. Mál manna var að fundurinn hafi gengið vel og lauk aðalfundi með kvöldfagnaði í Golfskálanum í Leiru þar sem málin hafa eflaust verið rædd enn betur.