Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aðalfundur SpKef: Sparisjóðir snúi bökum saman
Þriðjudagur 15. mars 2005 kl. 22:12

Aðalfundur SpKef: Sparisjóðir snúi bökum saman

Aðalfundur Sparisjóðsins í Keflavík var haldinn í Stapanum síðdegis. Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri kom víða við í ræðu sinni og fjallaði um samstarf sparisjóðanna, efnahagsástandið, fjármagnsmarkaðinn og hið ytra umhverfi sem Sparisjóðurinn starfar í.

Um efnahagsumhverfið hafði Geirmundur m.a. þetta að segja:
„Í efnahagslegu tilliti einkendist árið 2004 af bjartsýni og þrótti. Hagvöxtur jókst annað árið í röð sem orsakast af aukinni einkaneyslu, auknum fjárfestingum og almennri bjartsýni neytenda.  Ýmsar blikur eru þó á lofti um hækkandi verðlag.“ Geirmundur fjallaði einnig um sterkt gengi íslensku krónunnar og þau áhrif sem það hefur á þjóðarbúið. Lántaka erlendis hefur aukist til muna sem leitt hefur til lægri vaxtabyrði en gengisáhætta hefur í staðinn aukist.  Með tilkomu íbúðalána banka og sparisjóða hefur hlutur bankanna aukist í einstaklingslánum.  Á árinu 2004 jukust útlán bankakerfisins alls um 47%, þar af jukust útlán til einstaklinga um 73% og útlán til lögaðila um 40%.  Það sem einkenndi þó íslenskan verðbréfamarkað árið 2004 var þó líklegast útrás, eða sókn fyrirtækja á erlenda markaði. 

Þvínæst fjallaði Geirmundur um málefni sparisjóðanna þ.á.m. stofnfjárbréfamarkað SPRON, samruna SPRON og SPV sem ekkert varð af og ný dótturfélög sparisjóðanna, en það er Fjárfestingafélag Sparisjóðanna og Verðbréfaþjónusta Sparisjóðsins.

Eitt stærsta mál síðasta árs var framboð banka og sparisjóða á íbúðalánum á lægri vöxtum en áður þekktist. Í desember gengu Sparisjóðirnir síðan til samstarfs við Íbúðarlánasjóð um nýja leið við fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Þetta aukna framboð hefur skilað sér í lægri greiðslubyrði, hærra veðhlutfalli og hærra fasteignaverði.

Á árinu var gerður samningur við Lífeyrissjóð Suðurnesja um eignastýringu á hluta af eignum lífeyrissjóðsins. Með framangreindum samningi er verið að auka samstarf aðilanna og um leið verið að auka umsvif Viðskiptastofu Sparisjóðsins og treysta enn frekar þá starfsemi sem þar fer fram.

Enn og aftur kemur í ljós að viðskiptavinir Sparisjóðanna eru þeir ánægðustu í íslenska bankakerfinu, því nú fyrir nokkrum dögum kom í ljós að í sjötta skipti koma Sparisjóðirnir út sem sigurvegarar íslensku ánægjuvogarinnar, en þessi viðamikla könnun á ánægju viðskiptavina íslenskra fyrirtækja var fyrst gerð árið 1999.

Geirmundur fór yfir ársreikninginn þar sem kom fram að hagnaður Sparisjóðsins árið 2004 er 408 millj. kr. og þar vegur gengismunur einna þyngst.
Að lokum sagði Geirmundur þetta:
„Nú á tímum harðnandi samkeppni hefur verið enn meiri ástæða en áður fyrir sparisjóðina í landinu til að snúa bökum saman og efla samstarf á þeim sviðum þar sem það er hagkvæmt. Samstarfið á vettvangi Sambands íslenskra sparisjóða og Sparisjóðabankans hefur verið mjög mikilvægt í gegnum tíðina – sérstaklega fyrir hina minni sparisjóði – og gert sparisjóðina að því sterka afli sem þeir eru í samkeppni við fjárhagslega öflugri banka.

Þróunin síðustu misseri hefur orðið sú í þessu samstarfi að stærsti sparisjóðurinn – SPRON – hefur að mestu dregið sig út úr samstarfi um markaðsmál o.fl. Þetta er mjög bagalegt vegna þess að kostnaður eykst þá mjög mikið en SPRON nýtur auðvitað góðs af hinu sameiginlega markaðsstarfi. Ég tek það fram að ég hef að mörgu leyti skilning á ástæðum SPRON fyrir því að draga sig út úr sambandinu, reyndar má segja að þeim hafi hálfpartinn verið vísað á dyr.

Þetta er óásættanleg staða að mínu mati, sundrung á þessum tímum, er óskynsamleg og óskiljanleg í raun. Við hjá Sparisjóðnum í Keflavík höfum jafnan talað máli sátta í þessu samstarfi og reynt að leiða deilandi aðila saman. Ég lít svo á að á næstunni muni reyna frekar á þessi mál og þá jafnframt sameiginlega stefnumótun á vettvangi sparisjóðanna. Fyrir mitt leyti tel ég að Sparisjóðurinn í Keflavík eigi að halda öllum leiðum opnum í þessu sambandi, þ.e.a.s. hvað varðar samstarf við aðra sparisjóði og önnur fyrirtæki.

Þess má m.a. geta í því sambandi að við höfum nú t.d. undirritað viljayfirlýsingu við VÍS um sölu trygginga fyrir þá og Sparisjóðurinn hefur nýverið samið við Lífeyrissjóð Suðurnesja um stórfellda þjónustu á sviði eignastýringar eins og ég nefndi áður. Önnur mál hafa verið til skoðunar hjá stjórn sparisjóðsins, sem öll miða að því að styrkja stöðu sjóðsins sem sjálfstæðrar einingar. Þetta er ekki gert í þeim tilgangi að brjótast út úr sparisjóðafjölskyldunni heldur að efla sparisjóðinn, sem er á okkar svæði í því hlutverki að vera leiðandi aðili, og þarf því að geta boðið alla þjónustu við bæði fólk og fyrirtæki.

Á næsta starfsári getur þurft að taka afstöðu til stórra mála s.s. frekari útvíkkunar á starfseminni, samstarfs sparisjóðanna og tækifæra í samstarfi við aðra aðila. Mikilvægt er að mínu mati að við séum á þessum tímum opin fyrir öllum góðum málum og þá er mikilvægt að stofnfjáreigendur veiti stjórn sjóðsins umboð til slíkra verka.

Að lokum vil ég þakka stofnfjáreigendum, starfsfólki og stjórn sjóðsins fyrir gott og ánægjulegt samstarf á liðnu starfsári.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024