Að vera íslenskir ríkisborgarar er ekki merkilegra en fuglaskítur
Sólborg Guðbrandsdóttir segist í pistli sem hún skrifar á Facebook í gærkvöldi ekki skilja hvernig nokkur manneskja geti vaknað á morgnanna og talið sig það merkilega að geta útdeilt mannréttindum eftir eigin hentisemi. Hún segist fylgjast núorðið daglega með gömlum fjölskylduvinum og fólki sem hún hélt að væri almennt með gott hjarta skrifa eða taka undir það að hér séu útlendingar í hverju horni að yfirtaka landið, fremja glæpi og skemma íslenska menningu. Pistilinn endar hún svo á orðunum „Hver höldum við eiginlega að við séum?“
Pistill Sólborgar er eftirfarandi:
Ég fylgist núorðið daglega með gömlum fjölskylduvinum og fólki sem ég hélt að væri almennt með gott hjarta skrifa eða taka undir það að hér séu útlendingar í hverju horni að yfirtaka landið, fremja glæpi og skemma íslenska menningu. Þetta verði að stöðva áður en allt fari til andskotans. Ég fylgdist líka með Íslendingi fyrr í dag öskra á enskumælandi afgreiðslumann, sem var ekki einu sinni að afgreiða hann: „Are you not gonna learn icelandic? Say góðan daginn. Say it. You learn!“
Og ég velti því fyrir mér á hvaða vegferð við erum.
Ég á ekkert í þessu landi, þó ég heiti -dóttir og sé með hvíta húð og ljóst hár. Og ég skil ekki hvernig nokkur manneskja geti vaknað á morgnanna og talið sig það merkilega að geta útdeilt mannréttindum eftir eigin hentisemi. Að vera íslenskir ríkisborgarar er ekki merkilegra en fuglaskítur, ekkert frekar en það að kunna að bera fram orðin góðan daginn.
Ég er búin að hugsa mikið til bekkjarsystkina minna í útlendingaskólanum í Svíþjóð. Ég var eina ljóshærða í bekknum en þau tóku mér öll sem einni af þeim og voru þúsund sinnum hugrakkari en ég að spreyta sig í sænskunni. Öfga-hægriflokkur í Svíþjóð hélt svo mótmæli í næstu götu við skólann einn daginn, þar sem átti svoleiðis að henda útlendingunum heim til sín. Og ég vissi það alltaf að þau voru ekki að tala um mig. Bara bekkjarsystkini mín, sem höfðu ekkert rangt gert, annað en að fæðast brún og hinum megin á hnettinum.
Hver höldum við eiginlega að við séum?