Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ábyrgð leiðsögumanna og öryggi í óbyggðum
Myndirnar eru frá ferðinni örlagaríku á Skessuhorn.
Mánudagur 18. nóvember 2013 kl. 17:05

Ábyrgð leiðsögumanna og öryggi í óbyggðum

Jón Gauti Jónsson, fjallaleiðsögumaður, verður með opinn fyrirlestur í Keili 19. nóvember næstkomandi. Hann mun meðal annars ræða ábyrgð leiðsögumanna og segja frá nýrri bók sinni „Fjallabókin“. Fyrirlesturinn fer fram í aðalbyggingu Keilis kl. 12:00 - 13:30.

Jón Gauti Jónsson, er fæddur árið 1969 í Reykjavík. Hann hefur haldið námskeið í ferðamennsku, svæðafræðslu og náttúrutúlkun og er leiðbeinandi Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar í vetrarfjallamennsku, fjallabjörgun og ís- og klettaklifri. Jón Gauti, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, var árið 2002 skipaður í Landstjórn björgunarsveita sem fer með yfirstjórn allra björgunaraðgerða á landi fyrir hönd Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Undanfarin átta ár hefur Jón Gauti unnið sem fjallaleiðsögumaður í bakpokaferðum fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn.

Fjallabókin eins konar handbók og ferðabiblía, alls fimm hundruð blaðsíður. Bókin er ætluð nýliðum jafnt sem lengra komnum. Fátt ef eitthvað er undanskilið í bókinni hvað varðar fjallamennsku og göngur í óbyggðum Íslands og alls konar sögur má finna í henni líka.

Öryggismál eru Jóni Gauta sérstaklega hugleikin sem segir í inngangi meðal annars frá alvarlegum mistökum sem hann gerði sem leiðsögumaður á fjöllum og kostuðu unga konu næstum því lífið. „Sú reynsla breytti mér“, segir Jón Gauti en slysið varð á Skessuhorni fyrir rúmum þremur árum þegar kona í 11 manna hópi Jóns Gauta féll 200 metra niður bratta fjallshlíð. Hópurinn samanstóð af reyndum göngumönnum en Jón Gauti segir að slys sem þessi séu mest á ábyrgð leiðsögumannanna.

Hádegisfyrirlesturinn er í boði leiðsögunáms Keilis og Thompson Rivers University í ævintýraferðamennsku. Hann fer fram þriðjudaginn 19. nóvember kl. 12:00 - 13:30 í aðalbyggingu Keilis.

Nánari upplýsingar hér!



 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024