Áætlun kynnt um mat á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík
Verkfræðifyrirtækið HRV kynnir í dag tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík á Suðurnesjum. Tillagan lýsir áföngum matsferlisins og gert er ráð fyrir að hið eiginlega mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir að ári liðnu. Greint er frá þessu á vef Morgunblaðsins í dag.
Gert er ráð fyrir að 250.000 tonna álver veiti allt að 400 manns atvinnu og fjölmörg afleidd störf skapist jafnframt í nágrenni álversins, eins og reynslan hefur sýnt á Vesturlandi vegna álvers Norðuráls á Grundartanga. Vera varnarliðsins á Suðurnesjum veitir nú um 700 Íslendingum atvinnu. Viðræður eru í gangi milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíðartilhögun varnarmála. Þegar umsvif varnarliðsins voru í hámarki, störfuðu um 1400 Íslendingar á vegum þess, þannig að umtalsverð fækkun starfa hefur þegar átt sér stað.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir á mbl.is að tilkoma álversins í Helguvík sé hluti framtíðarsýnar um efnahagslega uppbyggingu á Suðurnesjum. „Fyrirhugað álver í Helguvík er afar áhugavert sóknarfæri fyrir Reykjanesbæ og nágrannabyggðir sem stuðlað getur að mun fleiri og fjölþættari vel launuðum störfum og skapað fjölmörg ný tækifæri fyrir verktaka og þjónustuaðila á svæðinu. Þetta verkefni yrði gríðarlegur styrkur fyrir byggðalögin hér og sama skapi mun stór hluti þeirrar umhverfisvænu orku sem hér verður til nýtast svæðinu beint. Það væri líka áhugavert á síðari stigum að huga að hugsanlegri nýtingu orku sem aflað yrði með djúpborunum á Suðurnesjum, en það verkefni er nú í undirbúningi,“ segir Árni.
Fulltrúar Norðuráls, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í maí sl. samkomulag þess efnis að kanna möguleika á rekstri álvers í Helguvík í landi Reykjanesbæjar. Fyrstu niðurstöður þessarar könnunar, sem lágu fyrir í september, gáfu til kynna að hafnarskilyrði í Helguvík, sem og forsendur orkuöflunar og umhverfisaðstæður, væru ákjósanleg til að reisa 250 þúsund tonna álver á núverandi iðnaðarsvæði í Helguvík.
Í nóvember sl. undirrituðu fulltrúar Reykjanesbæjar, Norðuráls og Fjárfestingastofunnar, sem er í eigu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, og Útflutningsráðs sameiginlega aðgerðaáætlun um frekara mat á hugsanlegri byggingu nýs álvers í nágrenni Helguvíkur. Aðgerðaáætlunin tekur m.a. til þróunar iðnaðarsvæðisins, öflunar og flutnings orku, uppfyllingar umhverfisskilyrða og þess að fullnægja öðrum lögbundnum og stjórnunarlegum kröfum. Gert er ráð fyrir vinnu samkvæmt fyrrgreindri aðgerðaáætlun verði lokið eigi síðar en í júlí 2006.
Núverandi framleiðslugeta álvers Norðuráls á Grundartanga er 90.000 tonn á ári en unnið er að stækkun í 220.000 tonn, sem áætlað að ljúka í haustbyrjun á þessu ári. Fyrirhugað er að stækka álverið í 260.000 tonn árið 2008, en þau áform eru enn háð tilteknum skilyrðum.
Matsáætlunina má nálgast á vefslóðinni www.hrv.is.
Frétt af vef Morgunblaðsins, www.mbl.is
Gert er ráð fyrir að 250.000 tonna álver veiti allt að 400 manns atvinnu og fjölmörg afleidd störf skapist jafnframt í nágrenni álversins, eins og reynslan hefur sýnt á Vesturlandi vegna álvers Norðuráls á Grundartanga. Vera varnarliðsins á Suðurnesjum veitir nú um 700 Íslendingum atvinnu. Viðræður eru í gangi milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíðartilhögun varnarmála. Þegar umsvif varnarliðsins voru í hámarki, störfuðu um 1400 Íslendingar á vegum þess, þannig að umtalsverð fækkun starfa hefur þegar átt sér stað.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir á mbl.is að tilkoma álversins í Helguvík sé hluti framtíðarsýnar um efnahagslega uppbyggingu á Suðurnesjum. „Fyrirhugað álver í Helguvík er afar áhugavert sóknarfæri fyrir Reykjanesbæ og nágrannabyggðir sem stuðlað getur að mun fleiri og fjölþættari vel launuðum störfum og skapað fjölmörg ný tækifæri fyrir verktaka og þjónustuaðila á svæðinu. Þetta verkefni yrði gríðarlegur styrkur fyrir byggðalögin hér og sama skapi mun stór hluti þeirrar umhverfisvænu orku sem hér verður til nýtast svæðinu beint. Það væri líka áhugavert á síðari stigum að huga að hugsanlegri nýtingu orku sem aflað yrði með djúpborunum á Suðurnesjum, en það verkefni er nú í undirbúningi,“ segir Árni.
Fulltrúar Norðuráls, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í maí sl. samkomulag þess efnis að kanna möguleika á rekstri álvers í Helguvík í landi Reykjanesbæjar. Fyrstu niðurstöður þessarar könnunar, sem lágu fyrir í september, gáfu til kynna að hafnarskilyrði í Helguvík, sem og forsendur orkuöflunar og umhverfisaðstæður, væru ákjósanleg til að reisa 250 þúsund tonna álver á núverandi iðnaðarsvæði í Helguvík.
Í nóvember sl. undirrituðu fulltrúar Reykjanesbæjar, Norðuráls og Fjárfestingastofunnar, sem er í eigu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, og Útflutningsráðs sameiginlega aðgerðaáætlun um frekara mat á hugsanlegri byggingu nýs álvers í nágrenni Helguvíkur. Aðgerðaáætlunin tekur m.a. til þróunar iðnaðarsvæðisins, öflunar og flutnings orku, uppfyllingar umhverfisskilyrða og þess að fullnægja öðrum lögbundnum og stjórnunarlegum kröfum. Gert er ráð fyrir vinnu samkvæmt fyrrgreindri aðgerðaáætlun verði lokið eigi síðar en í júlí 2006.
Núverandi framleiðslugeta álvers Norðuráls á Grundartanga er 90.000 tonn á ári en unnið er að stækkun í 220.000 tonn, sem áætlað að ljúka í haustbyrjun á þessu ári. Fyrirhugað er að stækka álverið í 260.000 tonn árið 2008, en þau áform eru enn háð tilteknum skilyrðum.
Matsáætlunina má nálgast á vefslóðinni www.hrv.is.
Frétt af vef Morgunblaðsins, www.mbl.is