Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Áætluð rekstrarniðurstaða betri í endurskoðaðri fjárhagsáætlun
Fimmtudagur 9. september 2010 kl. 10:45

Áætluð rekstrarniðurstaða betri í endurskoðaðri fjárhagsáætlun


Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta sé neikvæð um 96,4 milljónir króna. Áætluð rekstrarniðurstaða hefur því batnað um rúmar 137 milljónir króna.
Skýringar á því eru helstar þær að áætlaðir vextir og verðbætur langtímalána lækka um 103,1 milljón vegna mun minni hækkunar á neysluverðsvísitölu en áður hafði verið áætlað, segir í fundargerð bæjarstjórnar frá fundi hennar í gær.

Á móti kemur að vaxtatekjur bankareikninga lækka um 23,2 milljónir nettó. Þetta þýðir því að fjármagnsliðir A-hluta lækka um tæpar 80 milljónir nettó. Áætlun skatttekna hækkar um 72,9 milljónir sem skiptist þannig að staðgreiðsla hækkar um 40,1 milljón og áætluð framlög frá Jöfnunarsjóði hækka um 32,8 milljónir. Samþykktar breytingar á rekstrargjöldum eru 33,6 milljónir í aukin gjöld.

Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum er áætlað tap að fjárhæð 128 milljónir króna sem er um 168 milljónum hagstæðari niðurstaða en áður var áætlað.
Fjárfesting í varanlegum fastafjármunum er áætluð, í samanteknum reikningsskilum 548,2 milljónir og er það hækkun um 17,2 milljónir vegna frágangs á plani við nýtt vigtarhús hafnarinnar.

Veltufé frá rekstri í samanteknum reikningsskilum er áætlað 191,5 milljónir króna og er það hækkun um 6 milljónir.
Afborganir langtímalána eru áætlaðar 236,2 milljónir en það er lækkun um 14,5 milljónir króna.
Handbært fé í upphafi árs var 3.402,8 milljónir og  í árslok 2010 er það áætlað 2.908,8 milljónir króna í endurskoðaðri áætlun og hefur því handbært fé minnkað um 494 milljónir, segir í fundargerð bæjarstjórnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024