Áætlar að hringtorgið verði klárt eftir viku
Unnið hefur verið að hringtorgi á gatnamótum Faxabrautar og Hringbrautar í Reykjanesbæ síðustu vikur en áætluð verklok eru í kringum 11. október að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra Umhverfissviðs Reykjanesbæjar.
Einhverjir íbúar hafa gert athugasemd við stærð hringtorgsins en Guðlaugur hefur beðið fólk að bíða með að gagnrýna hringtorgið þangað til þeir hafa lokið sér af. „Núna erum við svolítið háðir veðri, þar sem það þarf að steypa kantsteina þegar þurrt er.“
Gatnamótin hafa verið lokuð eftir þörfum á meðan framkvæmdum stendur en reynt hefur verið eftir fremsta megni að hafa gatnamótin opin á morganana vegna umferðar.