Áætlaður kostnaður við hraðlest rúmir 100 milljarðar
Fargjald áætlað allt að 4000 kr.
Heildarkostnaður við fyrirhugaða hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur er áætlaður 102 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að áætlaður fjöldi seldra ferða opnunarárið 2023 verði tæpar 4 milljónir, þar af 2,3 milljónir til flugfarþega og 1,7 milljón til annarra farþega af Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við að 50% flugfarþega í millilandaflugi á leið til og frá landinu nýti lestina.
Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður tæpir 5,8 ma.kr., 4,1 ma.kr. vegna lesta og 1,7 ma.kr. vegna kerfis. Fargjald er áætlað á bilinu 800-3.800 kr. Tekjur eru áætlaðar 10,5 ma.kr. á fyrsta rekstrarári. Tekjur af flugfarþegum eru 87% heildartekna. Reiknað er með 20% eiginfjárhlutfalli (20,5 ma.kr.) og lánsfjárþörf upp á 95 ma.kr., 82 ma.kr. vegna stofnkostnaðar og 13 ma.kr. vegna vaxtakostnaðar á framkvæmdatíma. Rekstrarafkoma verkefnisins (EBITDA) reiknast 4,7 ma.kr. á fyrsta rekstrarári og 9,1 ma.kr. á ári tíu. Verkefnið skilar hagnaði fyrir skatta frá og með ári fjögur og fer að greiða skatta á ári 11.
Innri vextir verkefnisins af fjárfestingu hluthafa miðað við 30 ára rekstrartímabil eru 9,9%.