Áætla að rekstur Sandgerðisbæjar komist í jafnvægi árið 2018
- Bæjaryfirvöld kynntu í vikunni fjárhagsáætlun til ársins 2019
Samkvæmt fjárhagsáætlun Sandgerðisbæjar tímabilið 2016 til 2019 er áætlað að reksturinn nái jafnvægi í lok árs 2018. Frá hruni hefur bæjarfélagið glímt við fjárhagsvanda en að sögn Sigrúnar Árnadóttur bæjarstjóra í Sandgerði horfir reksturinn nú til betri vegar. „Við gerum ráð fyrir að skila neikvæðri rekstrarniðurstöðu á næsta og þar næsta ári en ná svo jafnvægi í lok árs 2018,“ segir hún.
Viðmið ríkisins um fjárhag sveitarfélaga eru að skuldir nemi ekki meiru en 149,9 prósentum af árlegum tekjum. Áætlað er að í lok þessa árs verði hlutfall Sandgerðisbæjar 189 prósent og í lok þess næsta 177 prósent. Miðað við fjárhagsáætlun er svo fyrirséð að reksturinn fari undir viðmiðið árið 2019. „Árið 2012 settum við okkur skýr markmið til ársins 2022 um að komast undir viðmiðin. Við tókum vel til í rekstrinum en gættum þess að halda uppi öflugri grunnþjónustu. Það hefur gengið vel að fara eftir áætlunum og það er að skila sér núna.“ Að sögn Sigrúnar voru skuldir bæjarins meðal annars til komnar vegna mikillar uppbygginar í bænum. Sundlaug og íþróttahús, grunnskóli og samkomuhús voru seld til Fasteignar ehf. og svo leigði bærinn þær af fyrirtækinu. Nú eru eignirnar aftur komnar í eigu bæjarins.