Fréttir

Á þriðja hundrað sagt upp hjá Airport Associates
Fimmtudagur 29. nóvember 2018 kl. 16:35

Á þriðja hundrað sagt upp hjá Airport Associates

Stærsta hópuppsögn á Suðurnesjum síðan Varnarliðið fór

Alls fá 237 starfsmenn Airport Associates (APA) á Keflavíkurflugvelli, stærsta þjónustuaðila WOW air,  sent uppsagnarbréf. Ástæður fyrir uppsögnunum eru til þess að fyrirtækið geti mætt mögulegri þörf fyrirtækisins til að endurskipuleggja starfsemi sína vegna erfiðleika í rekstri WOW air. Fundur með starfsmönnum APA hófst kl. 16.15 í dag, fimmtudag og lauk tuttugu mínútum síðar. Þar var greint frá þessari ákvörðun og farið yfir stöðu mála. Flestir starfsmannanna eru í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis en einnig í Verslunarmannafélagi Suðurnesja.

„Við hörmum að þurfa að grípa til svo róttækra aðgerða og vonumst til að geta afturkallað þessar uppsagnir svo fljótt sem kostur er, þegar flugáætlun skýrist,“ sagði Sigþór K. Skúlason, forstjóri Airport Associates.

„Þetta er grafalvarlegt mál. Við erum bara í sjokki. Þetta er stærsta hópuppsögn síðan Varnarliðið fór,“ sagði Kristján Gunnarsson, formaður VSFK.

Að sögn Kristján hafa verið ræddar ýmsar mótvægisaðgerðir hjá APA til að koma í veg fyrir uppsagnir en þróun mála undanfarna daga hefur verið á þann veg að ekki verður komið í veg fyrir uppsagnir. Hjá Airport Associates störfuðu mest um 700 manns í sumar en uppsagnirnar taka til flestra deilda fyrirtækisins, hlaðdeildar, farþegaþjónustu, hleðslueftirlits, frakt og ræsti- og öryggisdeildar. Fyrirtækið hefur þjónustað WOW air frá upphafi og flugfélagið hefur verið stór viðskiptavinur þess.
„Það er óhægt að segja að þetta sé svartur fimmtudagur.  Okkur er verulega brugðið en við munum þjónusta þessa starfsmenn eftir fremsta megni,“ sagði Kristján Gunnarsson.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Starfsmenn Airport Associates ganga út af starfsmannafundinum. VF-myndir/pket.

Forráðamenn verkalýðsfélaganna ræddu við forráðamenn Airport Associates eftir fundinn með starfsmönnum í höfuðstöðvum APA. Sigþór K. Skúlason, forstjóri fyrirtækisins er fyrir miðri mynd.