Á Suðurnesjum eru gríðarleg tækifæri
Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar segir þingsályktunartillöguna vel til þess fallna að þoka málum á Suðurnesjum áfram. „Það er alveg rétt sem sagt hefur verið og komið hefur fram að undanförnu að margar skýrslur hafa verið skrifaðar og mörg loforð verið gefin en ekkert gerist. Atvinnulíf á Suðurnesjum er að taka vel við sér og margt er í pípunum sem skapa mun mikla atvinnu á næstu misserum. Ég tel að með því að skipa þennan starfshóp fimm sérfræðinga úr ráðuneytunum ásamt sveitarstjórnamönnum á svæðinu komi eingöngu til með að hjálpa til við að koma málunum á enn betri rekspöl. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ástandið á Suðurnesjum á undanförnum árum hefur verið alvarlegt og enn er langt í land með að það verði viðunandi og ekki síst í stærsta bæjarfélaginu. Leita verður allra leiða til þess að koma því til hjálpar og ekki síst að gefa íbúum þess von um að betri tímar séu í vændum. Við sem að þessari tillögu stöndum trúum því að þessi samstarfshópur geti verið einn liður í því að að tekið sé á málefnum Suðurnesjabúa með skipulögðum hætti og það verði til þess að snúa þeirri slæmu þróun sem átt hefur sér stað á svæðinu hraðar við.
Hvað finnst þér um að ekki fleiri þingmenn af Suðurnesjum hafi verið meðflutningsmenn? Og um þær skýringar sem þeir gáfu í Víkurfréttum?
Ég er að sjálfsögðu verulega ósáttur við það, það hefði gefið þessari tillögu miklu meira vægi ef stjórnarþingmennirnir á svæðinu hefðu verið meðflutningsmenn. Það segir sjálft. Ég gef svo sem ekki mikið fyrir þessar skýringar sem þeir gefa á þessari afstöðu en virði þær samt. Þeir telja sig geta komið málunum betur áfram með því að þrýsta á framkvæmdavaldið og er það gott og vel. Ég er bara ekki að sjá það gerast, því miður. Eitt af markmiðum ríkistjórnarinnar var að auka opinber störf út á landsbyggðinni og flytja stofnanir út á land. Þann fjórða október í fyrra flutti Silja Dögg Gunnarsdóttir þingsályktunartillögu um fela innanríkisráðherra að hefja undirbúning að flutningi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Á þessari tillögu voru allir þingmenn Suðurnesja fyrir utan Vilhjám Árnason og Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Þessi tillaga er gott dæmi um flutning stofnunar sem um ríkir víðtæk sátt, starfsmenn almennt mjög hlynntir henni. Landhelgisgæslan rekur nú þegar hluta starfsemi sinnar á svæðinu og flutningur hennar myndi eingöngu efla og styrkja starfsemi hennar. Hver urðu örlög þessarar tillögu? Hún fékkst ekki einu sinni rædd í nefnd og dagaði uppi. Hún hefur reyndar verið endurflutt á þessu þingi. Í stað þess að samþykkja þessa góðu tillögu þá ákváðu tveir ráðherrar Framsóknarflokksins að flytja Fiskistofu út á land án nokkurar umræðu og í algerri andstöðu við alla starfsmenn stofnunarinnar.
Þrátt fyrir fögur fyrirheit menntamálaráðherra og mikinn þrýsting frá þingmönnum svæðisins þá hefur Fisktækniskólinn ekki fengið þjónustusamning sem hann hefur barist fyrir í nokkur ár. Keilir var gert að taka á sig lækkun vegna aðhaldskröfu stjórnvalda einn skóla og fær ekki húsaleigusamning eins og sambærilegir skólar, þrátt fyrir þrýsting þingmanna. Þannig að það fæst ekki séð að þessir góðu stjórnarþingmenn sem ég veit að eru að leggja sig alla fram hafi mikið að segja þegar að kemur að ákvörðunum sem varða Suðurnes. Margir vildu meina að síðasta ríkistjórn hafi verið á móti atvinnuuppbyggingu í Helguvík og um leið og ríkistjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna tæki við myndi allt fara á fulla ferð þar. Hefur það gerst? Nei. Tæpum tveimur árum eftir stjórnarskipti er allt við það sama í Helguvík.
Hvað finnst þér að við getum gert til þess að efla samfélagið og atvinnulífið hér á Suðurnesjum?
Á Suðurnesjum eru gríðarleg tækifæri til staðar til þess að efla og styrkja samfélögin. Eins og fram hefur komið áður þá er margt í bígerð sem efla mun atvinnu á Suðurnesjunum. Nægir þar að nefna fyrirhugaða hótelbyggingu við Bláa lónið sem mun skapa fjölmörg störf í framtíðinni ekki bara við hótelið sjálft heldur mun þetta skapa mörg afleidd störf í ferðaþjónustunni. Stækkun flugstöðvarinnar er svo annað verkefni sem mun fara í gang á næstunni og mun einnig skapa fjölmörg störf. Þó gæti komið bakslag í þau áform þar sem að meirhluti fjárlaganefndar setur fram hugmyndir þess efnis að láta Isavia greiða ríkinu arð upp á 700 milljónir, peninga sem áttu að fara í frekari uppbyggingu á flugstöðinni og umhverfi hennar.
Það hefur verið mikil gróska í nýsköpun upp í Eldey og hana verður að styrkja ennfrekar og síðan verður að skjóta styrkari stoðum undir menntastofnanirnar á svæðinu. Það er lykilatriði að þær fái að dafna og þroskast samfélaginu öllu til heilla. En fyrst og fremst þurfum við Suðurnesjamenn að standa saman í blíðu og stríðu og leita allra leiða til þess að gera þetta frábæra svæði enn betra til búsetu. Möguleikarnir liggja út um allt og það er ríkisvaldsins að skapa aðstæður fyrir frumkvöðla og fyrirtæki að hasla sér völl til þess að hefja hér starfsemi. Þessi þingsályktunartillaga er einn liður í því.