Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Á sér ekki stuðning meðal þjóðarinnar“
Fimmtudagur 3. september 2009 kl. 14:55

„Á sér ekki stuðning meðal þjóðarinnar“


Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ eru reiðbúnir að beita sér fyrir breytingum á núgildandi nýtingarsamningi við HS Orku ef nýskipuð nefnd ríkistjórnarinnar á orku og auðlindasviði kemst að þeirri niðurstöðu almennt skuli miða við hagstæðari samninga en Reykjanesbær hefur þegar gert við HS Orku.  Nefndinni er m.a. ætlað að endurskoða nýtingargjald af jarðauðlindum og mögulega breyta nýtingartíma.
Tillaga meirihluta Sjálfstæðisflokks  í bæjarstjórn í þessu veru var samþykkt með hans eigin atkvæðum í gær. Áður hafði meirihlutinn fellt tillögu A-listans um endurskoðun á nýgerðum hagnýtingarsamningi Reykjanesbæjar og HS Orku um nýtingu orkuauðlinda.

Tillaga A-listans gekk m.a. út á að auðlindagjald yrði endurskoðað með hliðsjón af viðmiðunarverði sem nefnd á orku- og auðlindasviði kæmi sér saman um. Einnig að skoðaðir yrðu möguleikar sveitarfélaganna á Suðurnesjum til að hafa áhrif á hvaða hátt orkuauðlindir á Suðurnesjum yrðu nýttar.

Sjálfstæðismenn felldu tillöguna sem fyrr segir og lögðu fram aðra. Í greinargerð með henni segir að með nýrri  nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, sem m.a. á að fara yfir nýtingargjald af auðlindum, sé gefið til kynna að hækka megi auðlindagjald frá því sem verið hefur og að mögulega verði breytt þeim 65 ára tímaramma sem þar sé getið.  Sjálfsagt sé að láta á það reyna hvort niðurstaðan leiði til aukinna tekna fyrir Reykjanesbæ og stuðla þá að því að henni verði fylgt í samningum milli HS orku og Reykjanesbæjar

„Það er auðvitað hjákátlegt að hlusta á tillöguflutning sjálfstæðismanna um endurskoðun á nýtingarsamningi náttúruauðlinda nú þegar tillaga A-listans um sama mál er komin fram. Þeim hefur loks skilist að allt þeirra háttalag í þessu máli á sér ekki stuðning meðal þjóðarinnar. Vonandi tekst ríkisstjórn Íslands að vinda ofan af þessum gjörningi eins og lýst hefur verið af fulltrúum hennar,“ segir í bókun sem A-listinn lagði fram eftir atvæðagreiðslu um tillögurnar.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/elg - Frá Reykjanesvirkjun